Heilsugæsla á landsbyggðinni

Endurmenntun starfsmanna Stjórnarráðs Íslands

Kaup Sjúkratrygginga Íslands á heilbrigðisþjónustu

Eftirfylgniúttektir Ríkisendurskoðunar


Heilsugæsla á landsbyggðinni

Ástæða úttektar

Rekstur heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hefur verið tvísýnn til margra ára. Vísbendingar eru einnig um að heilbrigðisþjónustan sé ekki full­nægjandi, skortur sé á fag­menntuðu heilbrigðis­starfs­fólki, sérstaklega heilsu­gæslulæknum og sérfræðilæknum. Ríkisendurskoðun þótti því ástæða til að ljúka þeirri úttekt á heilsugæslunni sem hófst með stjórnsýsluúttekt hennar á Heilsugæslu höfuð-borgar­svæðisins.

Lýsing

Úttektin tekur til allra heilsugæslustöðva á landsbyggðinni. Könnuð verður þróun rekstrar og þjónustu stofnananna og lagt mat á hagkvæmni og skilvirkni með samanburði milli stofnana og við Heilsu­gæslu höfuðborgarsvæðisins.

Markmið

Markmið úttektarinnar er að kanna hver sé stefna stjórnvalda um framtíðar­skipulag og þróun heilbrigðis­þjónustu á landsbyggðinni og hvernig þau uppfylli markmið laga um „að allir lands­menn hafi jafnan aðgang að full­komn­ustu heilbrigðis­þjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita“ og „að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga“.

Útgáfa

Stefnt er að því að birta niðurstöður úttektarinnar í opinberri skýrslu til Alþingis í júní 2017.

Endurmenntun starfsmanna Stjórnarráðs Íslands

Ástæða úttektar

Endurmenntun er mikilvægur hluti mannauðsstjórnunar auk þess sem hún hefur mikil áhrif á árangur viðkomandi skipulagsheilda. Forkönnun Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að litlar sem engar upplýsingar liggja fyrir um kostnað, umfang og ávinning endurmenntunar starfs­manna Stjórnarráðs Íslands. Einnig að mjög skortir á heildaryfirsýn og skipulagt utanumhald með endurmenntun starfsmanna Stjórnarráðsins.

Lýsing

Kannað verður hvernig ráðuneytin standa að endurmenntun starfsmanna sinna og hvernig þau halda utan um kostnað og umfang endurmenntunar. Einnig verður athugað hvernig endurmenntun starfsmanna ráðuneytanna samræmist markmiðum mannauðsstefnu Stjórnarráðsins um fræðslu og starfsþróun.

Markmið

Leitast verður við að leiða í ljós áhrif endurmenntunar á rekstur og mannauð ráðuneytanna og hvort staðið sé að endurmenntun starfsmanna Stjórnarráðsins með hagkvæmum og árangursríkum hætti.

Útgáfa

Stefnt er að því að birta niðurstöður úttektarinnar í opinberri skýrslu til Alþingis í september 2017.

Kaup Sjúkratrygginga Íslands á heilbrigðisþjónustu

Ástæða úttektar

Úttekt á samningum Sjúkratrygginga Íslands er meðal frumkvæðisúttekta stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2017. Sjúkratryggingar Íslands tóku til starfa 1. október 2008. Á tímabilinu 2008-15 jukust útgjöld stofnunarinnar vegna kaupa á sérgreinalækningum um tæp 40% að raunvirði. Á sama tímabili stóðu fjárveitingar ríkissjóðs til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala nánast í stað. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um sjúkratryggingar frá árinu 2008 kom fram að með þeim ætti að bregðast við þremur meginvandamálum heilbrigðiskerfisins, þ.e. sjálfvirkri aukningu útgjalda, takmörkuðum hvötum til kostnaðaraðhalds og langdregnum viðbrögðum við þörfum notenda. Í væntanlegri úttekt Ríkisendurskoðunar verður reynt að meta hvort þessum markmiðum hafi verið náð.

Lýsing

Úttektin tekur til kaupa Sjúkratrygginga Íslands á heilbrigðisþjónustu. Teknir verða til skoðunar valdir samningar sem stofnunin hefur gert. Litið verður til undirbúnings, framkvæmdar og eftirlits Sjúkratrygginga með þeim og reynt að leggja mat á árangur þeirra. Þá verður það umhverfi sem stofnuninn vinnur við tekið til skoðunar. Í því sambandi verður m.a. horft til samskipta og ábyrgðarskila Sjúkratrygginga Íslands og velferðarráðuneytis sem og annarra ríkisaðila, þ. á m. Landspítala og Embættis landlæknis.

Markmið

Reynt verður að svara því hvort samningar Sjúkratrygginga Íslands á heilbrigðisþjónustu séu hagkvæmir og árangursríkir og stuðli að skilvirkni í heilbrigðiskerfinu í heild. Einnig verður leitast við að svara hvort annmarkar séu á starfsumhverfi, starfsemi og starfsháttum Sjúkratrygginga Íslands við kaup hennar á heilbrigðisþjónustu.

Útgáfa

Ríkisendurskoðun stefnir að því að birta niðurstöður úttektarinnar í opinberri skýrslu til Alþingis í október 2017.

Eftirfylgniúttektir Ríkisendurskoðunar

Ástæða úttekta

Í samræmi við alþjóðlega staðla um stjórnsýsluendurskoðun (ISSAI 3100) eru eftirfylgniúttektir snar þáttur í starfsemi Ríkisendurskoðunar og því ferli sem stofnunin fylgir í störfum sínum (sbr. Vinnuferli stjórnsýsluúttekta). Með slíkum úttektum leitast stofnunin við að kanna á hlutlægan og sjálfstæðan hátt afdrif þeirra ábendinga um úrbætur sem hún setur fram í stjórnsýsluúttektum sínum og meta hvort brugðist hafi verið við þeim með viðhlítandi hætti. Í því sambandi er lögð megináhersla á að kanna hvort þeir annmarkar eða veikleikar sem stofnunin vakti athygli á séu enn fyrir hendi.

Markmið úttekta

Með eftirfylgniúttektum sínum leitast Ríkisendurskoðun við að auka áhrif stjórnsýsluúttekta sinna með því að minna á meginniðurstöður þeirra, athugasemdir og ábendingar og ítreka þær eða árétta ef þörf þykir. Um leið eru úttektirnar mikilvægur þáttur í innra gæðaeftirliti og gæðamati Ríkisendurskoðunar, þ.e. eigin mati hennar á því hvort ábendingar stofnunarinnar séu réttmætar og raunhæfar og stuðli að raunverulegum úrbótum. Á þann hátt eru þær liður í að bæta vinnubrögð við stjórnsýsluendurskoðun.

Lýsing úttekta

Eftirfylgniúttektir eru að jafnaði gerðar um það bil þremur árum eftir að stjórnsýsluúttektum lýkur og felast í sjálfstæðri könnun og mati á þeim upplýsingum og gögnum sem málið varða. Ævinlega er leitað til þess ráðuneytis eða þeirrar stofnunar sem í hlut á og óskað eftir greinargerð þeirra um það hvort ábendingar Ríkisendurskoðunar hafi orðið tilefni til breytinga og þá hverra. Eftir föngum er jafnframt hugað að opinberum gögnum, m.a. tölulegum upplýsingum. Ef þörf krefur er eftirfylgniúttektum fylgt eftir að nýju að þremur árum liðnum.

Útgáfa

Niðurstöður Ríkisendurskoðunar og viðbrögð ráðuneytis eða stofnunar við þeim eru settar fram í sérstökum skýrslum sem sendar eru Alþingi og birtar á heimasíðu Ríkisendurskoðunar.