Sveinn Arason var ráðinn ríkisendurskoðandi árið 2008 til sex ára. Í mars árið 2014 var ráðning hans framlengd til ársins 2018.

Sveinn er fæddur árið 1948, lauk kandídatsprófi í viðskiptafræðum árið 1972 og hlaut löggildingu sem endurskoðandi árið 1976. Hann hefur starfað hjá Ríkisendurskoðun frá árinu 1972, lengst af sem skrifstofustjóri á endurskoðunarsviði stofnunarinnar. Sveinn var norrænn tengiliður Ríkisendurskoðunar frá 1987 til 1992 og sat í endurskoðunarnefnd Félags löggiltra endurskoðenda frá 2000 til 2002. Þá sat hann í endurskoðendaráði EFTA (EBOA) frá 1992 til 2009. Sveinn er kvæntur Jónu Möller, fyrrverandi aðstoðarskólastjóra Kópavogsskóla, og eiga þau tvær dætur.

Sveinn er þriðji maðurinn sem gegnir stöðu ríkisendurskoðanda frá því að stofnunin var færð undir Alþingi í ársbyrjun 1987. Hinir tveir eru þeir Halldór V. Sigurðsson (til 1992) og Sigurður Þórðarson (1992–2008). Ágrip af sögu Ríkisendurskoðunar.