Ábendingar er varða verkefni Landhelgisgæslunnar erlendis

Ríkisendurskoðun telur að kveða þurfi skýrar að orði um það í lögum en nú er að Landhelgisgæslu Íslands sé heimilt að taka að sér verkefni fyrir erlenda aðila. Innanríkisráðuneytið þurfi að fylgjast með því að umsvif stofnunarinnar erlendis komi ekki í veg fyrir að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu hér við land.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um verkefni sem Landhelgisgæsla Íslands sinnir fyrir erlenda aðila, m.a. Landamærastofnun Evrópu (Frontex). Fram kemur að á árunum 2007–11 stóðu ríkisframlög til Landhelgisgæslunnar nánast í stað í krónum talið en á sama tíma hækkaði rekstrarkostnaður stofnunarinnar um 57%. Að stórum hluta megi rekja þessa hækkun til gengisfalls krónunnar en um fjórðungur af rekstrarkostnaði Landhelgisgæslunnar sé í erlendri mynt. Stofnunin hafi m.a. brugðist við breyttum rekstrarforsendum með því að taka að sér verkefni erlendis en þau hafi skilað henni samtals um tveggja milljarða króna sértekjum á árunum 2010 og 2011. Þessar tekjur hafi m.a. verið nýttar til að sinna viðhaldi og eftirliti með flugvélum, þyrlum og varðskipum. Þá hafi þær gert stofnuninni mögulegt að endurráða þyrluáhafnir sem sagt var upp árið 2009 og ráða nýja starfsmenn.

Verkefni Landhelgisgæslunnar fyrir erlenda aðila byggja á ákvæði í lögum um stofnunina þar sem segir að henni sé í samráði við ráðherra heimilt að taka að sér ólögbundin verkefni með samningum. Ekki er tekið sérstaklega fram að heimildin nái til verkefna erlendis. Ríkisendurskoðun telur að kveða þurfi skýrar að orði um það í lögunum að Landhelgisgæslunni sé heimilt að taka að sér slík verkefni.

Fram kemur að stofnunin hafi haft samráð við innanríkisráðuneytið þegar hún hafi tekið að sér verkefni erlendis og að þessi tekjuöflunarleið hafi notið velvilja stjórnvalda og Alþingis. Að mati Ríkisendurskoðunar er hins vegar mikilvægt að ráðuneytið fylgist með því að umsvif stofnunarinnar erlendis komi ekki í veg fyrir að hún geti sinnt hlutverki sínu hér við land. Þá telur Ríkisendurskoðun að Landhelgisgæslan og ráðuneytið þurfi að skilgreina hvert skuli vera lágmarksþjónustustig stofnunarinnar. Jafnframt þurfi að móta stefnu um hvernig bregðast skuli við ýmsum breytingum á starfsumhverfi Landhelgisgæslunnar sem vænta megi á næstu árum og áratugum, s.s. vegna aukinnar skipaumferðar við landið. Gera þurfi landhelgisáætlun til annars vegar tíu ára og hins vegar þriggja ára þar sem lykilmarkmið starfseminnar komi fram, helstu verkefni og aðgerðir auk mælikvarða á árangur. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að slíkar áætlanir verði gerðar hið fyrsta og að þeim verði síðan fylgt vel eftir.

Landhelgisgæslan hefur leitast við greina útlagðan kostnað af erlendri starfsemi sinni frá kostnaði vegna starfsemi hér við land. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf stofnunin þó að gera betur í þessu efni til að unnt verði að meta nákvæmlega raunkostnað af verkefnum hennar erlendis og afkomu þeirra.