Ábendingar frá 2007 ítrekaðar

Af fimm ábendingum sem Ríkisendurskoðun setti fram í skýrslu um sameiningu St. Jósefsspítala og Sólvangs hafa tvær verið framkvæmdar að fullu. Ríkisendurskoðun ítrekar nú hinar þrjár.Árið 2007 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um sameiningu St. Jósefs­spítala og hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði. Þar var fimm ábend­ingum beint til heilbrigðisyfirvalda og hinnar nýju sameinuðu stofnunar, St. Jósefsspítala – Sólvangs. Nú þremur árum síðar hafa tvær þeirra verið framkvæmdar að fullu. Í nýrri skýrslu ítrekar Ríkisendurskoðun hinar þrjár: að ráðuneytið geri árangursstjórnunarsamning við stofnunina, að deildarstjórar taki virkari þátt í gerð fjárhagsáætlana og að svokölluð DRG kostnaðargreining verði innleidd á stofnuninni.
Samkvæmt 9. gr. laga um Ríkisendurskoðun felst stjórnsýsluendurskoðun í því að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár. Stofnunin skal vekja athygli á því sem hún telur að úrskeiðis hafi farið í rekstri og benda á leiðir til úrbóta. Hverri stjórnsýsluúttekt er fylgt eftir með athugun á því hvernig brugðist hefur verið við ábendingum hennar. Slík eftirfylgni fer fram um það bil þremur árum eftir útgáfu skýrslu.