Ábendingar frá 2007 um stjórnsýslu vinnuverndarmála ítrekaðar

Ríkisendurskoðun ítrekar ábendingar frá árinu 2007 til félags- og tryggingamálaráðuneytisins um leiðir til að bæta skipulag og stjórnun vinnuverndarmála.Árið 2007 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem bent var á ýmislegt sem betur mætti fara í stjórnun vinnuverndarmála hér á landi og starfsháttum Vinnueftirlits ríkisins. Nú þremur árum síðar hefur Vinnueftirlitið brugðist með fullnægjandi hætti við þeim ábendingum skýrslunnar sem að því lutu. Á hinn bóginn hefur félags- og tryggingamálaráðuneytið, sem fer með yfirstjórn vinnuverndarmála, ekki brugðist við ábendingum sem beint var til þess. Í nýrri skýrslu ítrekar Ríkisendurskoðun þær.
Í fyrsta lagi telur Ríkisendurskoðun að leggja eigi niður stjórn Vinnueftirlitsins og stofna í staðinn vinnuverndarráð sem yrði samráðsvettvangur hagsmunaaðila og stjórnvalda. Í öðru lagi þurfi að virkja árangursstjórnunarsamning ráðuneytisins við Vinnueftirlitið. Í þriðja lagi eigi að gera formlega athugun á hagræði þess að flytja hluta eftirlits með vinnuvélum, sem Vinnueftirlitið sinnir nú, til faggiltra skoðunarstofa. Loks þurfi að kanna hagkvæmni þess að flytja skráningu vinnuvéla og umsýslu með starfsréttindum vegna þeirra alfarið frá Vinnueftirlitinu til Umferðarstofu.
Samkvæmt 9. gr. laga um Ríkisendurskoðun felst stjórnsýsluendurskoðun í því að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár. Stofnunin skal vekja athygli á því sem hún telur að úrskeiðis hafi farið í rekstri og benda á leiðir til úrbóta. Hverri stjórnsýsluúttekt er fylgt eftir með athugun á því hvernig brugðist hefur verið við ábendingum hennar. Slík eftirfylgni fer fram u.þ.b. þremur árum eftir útgáfu skýrslu.