Ábendingar um samgönguframkvæmdir frá 2008 ítrekaðar

Ríkisendurskoðun leggur til að ábyrgð á eftirliti með mengunarvörnum á hafi verði færð frá Umhverfisstofnun til Siglingastofnunar eða nýrrar stjórnsýslustofnunar samgöngumála. Þá telur Ríkisendurskoðun að ákvarðanataka um samgönguframkvæmdir eigi ávallt að byggjast á vandaðri greiningu ólíkra valkosta og að Vegagerðin eigi að nýta betur stærðarhagkvæmni í útboðsverkum.Árið 2008 gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu um samgönguframkvæmdir hér á landi þar sem samtals átta ábendingum var beint til samgönguráðuneytisins (nú innanríkisráðuneyti) og Vegagerðarinnar. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hafa fjórar þeirra að öllu leyti komið til framkvæmda eða eru í þann veginn að koma til framkvæmda. Aðrar tvær ábendingar hafa verið framkvæmdar að hluta og ítrekar Ríkisendurskoðun aðra þeirra. Þá hefur ekki verið brugðist við tveimur ábendingum og ítrekar stofnunin þær. Fram kemur að mat Ríkisendurskoðunar miðist við að frumvörp til laga um nýja stjórnsýslustofnun samgöngumála og nýja framkvæmdastofnun samgöngumála verði samþykkt á Alþingi.
Ríkisendurskoðun ítrekar ábendingar um að:

  • Ábyrgð á eftirliti með mengunarvörnum á hafi flytjist frá Umhverfisstofnun til Siglingastofnunar eða nýrrar stjórnsýslustofnunar samgöngumála, Farsýslunnar, þegar henni verður komið á fót.
  • Ákvarðanataka um samgönguframkvæmdir byggi ávallt á vandaðri greiningu ólíkra valkosta, svokallaðri félagshagfræðilegri greiningu sem vegur saman væntanlegan kostnað og ávinning mismunandi framkvæmda. Ríkisendurskoðun telur að Vegagerðin eigi að láta vinna slíka greiningu og leggja hana fram við gerð samgönguáætlunar.
  • Stærðarhagkvæmni verði betur nýtt í útboðsverkum Vegagerðarinnar en nú er.