Ábendingar um starfsemi Þjóðleikhússins ítrekaðar

Ríkisendurskoðun fagnar umbótum í starfsemi Þjóðleikhússins en ítrekar jafnframt ábendingar sínar frá árinu 2008 til þess og ráðuneytis menningarmála.Árið 2008 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um Þjóðleikhúsið þar sem bent var á ýmis atriði sem betur mættu fara í starfseminni og umgjörð hennar. Nú þremur árum síðar hefur flestum þessara ábendinga verið fylgt og lýsir Ríkisendurskoðun ánægju sinni með það. Engu að síður ítrekar stofnunin í nýrri skýrslu nokkrar ábendingar sem ekki hefur verið fylgt og er ein þeirra raunar að hluta til ný þar sem aðstæður hafa breyst frá útgáfu skýrslunnar.
Þar sem nýtt veglegt tónlistarhús verður senn tekið í notkun í Reykjavík er mennta- og menningarmálaráðuneytið hvatt til að endurskoða ákvæði leiklistarlaga um að Þjóðleikhúsið skuli standa að flutningi á óperum. Einnig er ráðuneytið hvatt til að vinna að því að fella starfsemi þjóðleikhúsráðs í fastari skorður og formfesta betur samskipti þess við þjóðleikhússtjóra og ráðuneytið. Þá er það hvatt til að móta framtíðarstefnu um húsnæðismál Þjóðleikhússins.
Þjóðleikhúsið er hvatt til að endurskoða reglur um frímiða en slíkir miðar voru á bilinu 16–19% allra miða leikhússins leikárin 2005–2008. Einnig er leikhúsið hvatt til að gera áætlun um endurnýjun á tæknibúnaði og kanna leiðir til að bæta nýtingu húsnæðis síns, t.d. með starfi yfir sumartímann.