Ábyrgð á verkefnum fyrrum Varnarmálastofnunar hefur verið skýrð

Að mati Ríkisendurskoðunar hafa stjórnvöld leyst úr þeim ágreiningi sem ríkti um skeið um verkefni fyrrum Varnarmálastofnunar.

Í skýrslunni Verkefni fyrrum Varnarmálastofnunar (2013) beindi Ríkisendurskoðun þeirri ábendingu til forsætisráðuneytis að leysa þyrfti ágreining utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis um þau verkefni sem Varnarmálastofnun hafði undir höndum á árunum 2008–11, einkum þau sem Landhelgisgæsla Íslands sinnti. Fjárveitingar til þeirra rynnu til innanríkisráðuneytis þótt forræði á þeim og eftirlitsskylda væru hjá utanríkisráðuneyti. Mikilvægt væri að stjórnsýsluleg, fjárhagsleg og fagleg ábyrgð færi saman og að valdmörk væru skýr.

Í nýrri eftirfylgniúttekt sinni telur Ríkisendurskoðun að stjórnvöld hafi brugðist með fullnægjandi hætti við þessari ábendingu. Fjárheimildir í fjárlögum ársins 2016 vegna varnartengdra verkefna hafa verið færðar frá innanríkisráðuneyti til utanríkisráðuneytis auk þess sem nýr samningur ráðuneytanna um framkvæmd verkefnanna var undirritaður 30. júlí 2014. Af þessum sökum telur Ríkisendurskoðun ekki þörf á að ítreka ábendingu sína.