Afkoma ríkissjóðs á fyrri helmingi ársins betri en áætlað var

Greiðsluhalli ríkissjóðs nam 16,7 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs og var nokkru minni en búist var við. Þrátt fyrir það voru gjöld fjölmargra fjárlagaliða umfram áætlun á tímabilinu. Ríkisendurskoðun telur að almennt hafi slaknað nokkuð á þeim aga sem innleiddur var við framkvæmd fjárlaga fyrst eftir efnahagshrunið. Stofnunin hvetur fjárlaganefnd til að kalla eftir svörum ráðherra um hvernig eigi að taka á vanda stofnana með uppsafnaðan halla.[Uppfært 6.11.2013] Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 kemur fram að greiðsluhalli á rekstri ríkissjóðs nam um 16,7 milljörðum króna á tímabilinu. Það er nokkru betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir en í fjárlögum er áætlað að greiðsluhallinn á árinu öllu verði um 21 milljarður króna. Gjöld ríkissjóðs voru 7,8 milljörðum króna lægri á tímabilinu en áætlað var eða tæplega 278 milljarðar króna. Tekjurnar voru aftur á móti lítillega hærri en gert var ráð fyrir eða um 260,2 milljarðar króna.

Á fyrstu sex mánuðum ársins fóru gjöld 166 fjárlagaliða fram úr áætlun (af samtals 437) en gjöld 271 liðar voru ýmist í samræmi við eða undir áætlun. Hlutfall fjárlagaliða sem fara fram úr áætlun á fyrri hluta árs hefur hækkað undanfarin tvö ár. Að mati Ríkisendurskoðunar bendir þetta til þess að nokkuð hafi slaknað á þeim aga sem innleiddur var við framkvæmd fjárlaga fyrst eftir efnahagshrunið árið 2008.

Nokkrir fjáralagliðir eru með uppsafnaðan halla án þess að viðkomandi ráðuneyti hafi brugðist við með fullnægjandi hætti. Sumir þessara liða hafa náð jafnvægi í rekstri sínum en sitja uppi með halla frá fyrri árum. Að mati Ríkisendurskoðunar er eðlilegt að fjárlaganefnd kalli eftir svörum hlutaðaeigandi ráðherra um hvernig tekið verði á þessum vanda.

Í skýrslunni er vakin athygli á stöðu nokkurra fjárlagaliða þar sem fjárveiting byggist á áætlun um fjölda einstaklinga sem eiga rétt á greiðslum. Hér er m.a. átt við liði vegna opinberrar réttaraðstoðar, bóta til brotaþola og greiðslna sjúkratrygginga. Þessir liðir fara iðulega fram úr fjárheimildum og telur Ríkisendurskoðun að ekki sé nægjanlega tekið mið af reynslu undangenginna ára þegar gjöld þeirra eru áætluð. Stofnunin telur mikilvægt að áætlanagerð vegna þessara liða verði bætt.

Einnig er í skýrslunni vakin athygli á alvarlegri stöðu Íbúðalánasjóðs en verulegt tap varð á rekstri hans á fyrri hluta ársins. Að mati Ríkisendurskoðunar er ekki tilefni til að ætla að sú staða breytist það sem eftir lifir ársins. Stofnunin telur að óbreyttu útlit fyrir að rekstur sjóðsins muni íþyngja ríkissjóði verulega á næstu árum.