Áherslur og viðfangsefni stjórnsýsluúttekta næstu tvö árin

By 3.11.2009 2009 No Comments

Sjónum verður sérstaklega beint að þeim meginvandamálum sem stjórnvöld og ríkisstofnanir standa frammi fyrir vegna efnahagshrunsins.Meðal lögbundinna verkefna Ríkisendurskoðunar er að kanna meðferð og nýtingu almannafjár, hvort starfsemi ríkisins sé hagkvæm, skilvirk og skili þeim árangri sem að er stefnt. Þessu verkefni sinnir stofnunin með sérstökum úttektum, svokölluðum stjórnsýsluúttektum, en niðurstöður þeirra eru ávallt birtar í opinberum skýrslum.

Samkvæmt nýútkominni starfsáætlun Ríkisendurskoðunar munu stjórnsýsluúttektir hennar á tímabilinu frá hausti 2009 til hausts 2011 sérstaklega beinast að þeim meginvandamálum sem stjórnvöld og ríkisstofnanir standa frammi fyrir vegna efnahagshrunsins. Jafnframt verður hugað að endurskipulagningu opinberrar þjónustu og áhersla lögð á leiðir til að auka sparnað í rekstri ríkisins og einstakra stofnana þess.

Lögð verður aukin áhersla á eftirlit í samtíma en venja er að horfa einkum aftur í tímann í stjórnsýsluúttektum. Leitast verður við að bregðast hratt og vel við óvæntum atburðum og beina sjónum að afmörkuðum vandamálum fremur en starfsemi stofnana í heild sinni eða heilum málaflokkum. Þá verður lögð áhersla á hraða málsmeðferð og aukið samstarf þess sviðs innan Ríkisendurskoðunar sem sinnir stjórnsýsluúttektum við önnur svið stofnunarinnar. Enn fremur verður lögð áhersla á aukinn sýnileika þessarar starfsemi í samfélaginu með marvissri miðlun upplýsinga um hana.

Á því tímabili sem starfsáætlunin nær til er m.a. ráðgert að beina sjónum að eftirfarandi viðfangsefnum en upptalningin er ekki tæmandi:
• Innkaupum ríkisins á vörum og þjónustu
• Greiðslum til sérfræðilækna
• Fjármálastjórn ráðuneyta
• Ráðningarmálum ríkisins (frá ráðningu til starfsloka)
• Áformaðri sameiningu ríkisstofnana
• Árangursstjórnun ríkisstofnana/ríkisverkefna
• Styrkjum og framlögum ríkisins til einkaaðila
• Örúttektum á sérstaklega völdum stofnunum sem eiga við fjárhagsvanda að etja eða eru undir miklu álagi vegna efnahagsástandsins og krafna um hagræðingu
• Eftirfylgniskýrslum (vegna úttekta síðustu ára)

Þess ber að geta að einhver framangreindra viðfangsefna kunna að falla brott og önnur að koma í þeirra stað enda verður verkefnaval stofnunarinnar í sífelldri endurskoðun á komandi misserum.

Starfsáætlun 2009-11