Alþingi felur Ríkisendurskoðun aukin verkefni


Ríkisendurskoðun skal taka við og birta upplýsingar um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi nokkur ár aftur í tímann samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti skömmu fyrir þingfrestun. Stofnuninni er þó ekki falið að staðfesta réttmæti þessara upplýsinga. Sannleiksgildi þeirra verður alfarið á ábyrgð viðkomandi flokka og frambjóðenda.Frá árinu 2007 hefur Ríkisendurskoðun haft það verkefni að taka við og birta árlega upplýsingar um tekjur og gjöld stjórnmálaflokka. Um þetta er fjallað í lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Þar er einnig kveðið á um að stofnunin skuli birta upplýsingar um tekjur og gjöld frambjóðenda í prófkjörum. Samkvæmt nýju bráðabirgðaákvæði laganna skal Ríkisendurskoðun að auki taka við og birta upplýsingar um öll bein og óbein fjárframlög sem námu 200 þús.kr. eða hærri fjárhæð
• til stjórnmálaflokka, jafnt landsflokkanna sem eininga sem undir þá falla eða tengjast rekstri og eignum þeirra, á tímabilinu 2002–2006,
• til frambjóðenda sem tóku þátt í forvali eða prófkjöri fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar á árunum 2006 og 2007,
• til frambjóðenda í kosningum til formanns eða varaformanns í flokkunum á tímabilinu 2005–2009.
Flokkum og einstaklingum er í sjálfsvald sett hvort þeir veita Ríkisendurskoðun fyrrgreindar upplýsingar. Hafi heildarfjárhæð framlaga til frambjóðanda verið undir 300 þús.kr. getur hann sent Ríkisendurskoðun yfirlýsingu um það, án þess að sundurliða eða tilgreina nánar fjárhæðir.
Ríkisendurskoðun skal samræma þær upplýsingar sem hún fær samkvæmt framansögðu og birta fyrir lok ársins 2009. Fyrir hvern flokk eða frambjóðanda sem skila upplýsingum skal koma fram
• heildarfjárhæð árlegra framlaga,
• heildarfjárhæð árlegra framlaga frá einstaklingum,
• heildarfjárhæð árlegra framlaga frá lögaðilum.
Nafngreina skal þá einstaklinga eða lögaðila sem veittu framlag sem var 500 þús.kr. eða hærra til flokks eða frambjóðanda. Ekki skal þó birta nafn einstaklings nema hann hafi veitt ótvírætt samþykki fyrir því. Hafi lögaðili krafist trúnaðar um stuðning sinn skal engu að síður birta upplýsingar um fjárhæð framlags ef hún er yfir fyrrnefndum mörkum en sleppa því að nafngreina greiðandann. Ríkisendurskoðun getur sett reglur um það með hvaða hætti framlög sem ekki eru bein fjárframlög skuli metin til fjár.
Þess ber að geta að samkvæmt nýja bráðabirgðaákvæðinu hefur Ríkisendurskoðun eingöngu það hlutverk að taka við upplýsingum um framlög til flokka og frambjóðenda og birta þær með samræmdum hætti. Stofnuninni er ekki falið að staðfesta réttmæti upplýsinganna. Sannleiksgildi þeirra verður því alfarið á ábyrgð viðkomandi flokka og frambjóðenda, rétt eins og gildir um þær upplýsingar sem þessum aðilum er skylt að veita Ríkisendurskoðun samkvæmt eldri ákvæðum laganna.