Árangur viðamikilla sértækra aðgerða verði ávallt metinn formlega og heildstætt

Mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna samdráttar þorskveiðiheimilda árið 2007 gengu almennt eftir eins og ráðgert var. Fjárveitingar vegna þeirra hafa að mestu verið fullnýttar. Ríkisendurskoðun gagnrýnir hins vegar að ekki hefur verið lagt formlegt mat á árangur aðgerðanna. Stofnunin beinir því til stjórnvalda að þau tryggi að árangur viðamikilla sértækra aðgerða verði ávallt metinn með heildstæðum hætti. Þá telur stofnunin mikilvægt að stjórnvöld leiti staðfestingar Alþingis í formi þingsályktunar þegar þau hyggjast verja verulegum fjármunum í slíkar aðgerðir.Um mitt ár 2007 ákvað þáverandi sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, að þorskveiðiafli á fiskveiðiárinu 2007–2008 skyldi vera 130 tonn, 60 þúsund tonnum minni en fiskveiðiárið á undan. Niðurskurðurinn var í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem lagði áherslu á að dregið yrði úr veiði til að vernda þorskstofninn og stuðla að uppbyggingu hans. Í kjölfarið kynnti ríkisstjórnin áform um viðamiklar aðgerðir til að vega upp á móti neikvæðum áhrifum minnkandi þorskafla á atvinnulíf og samfélag í sjávarbyggðum. Til stóð að á næstu þremur árum yrði fjármunum varið til að styðja fyrirtæki og sveitarfélög, auka menntun íbúa og aðstoða atvinnuleitendur. Þá var ráðgert að flýta vegaframkvæmdum og uppbyggingu fjarskiptakerfa. Enn fremur var gert ráð fyrir að skuldir Byggðastofnunar yrðu lækkaðar til að auka svigrúm hennar til útlána. Loks var gert ráð fyrir að Orkubú Vestfjarða legði fram fé til að kosta tengingu á raforkukerfi Ísafjarðardjúps við flutningskerfi Landsnets.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að kostnaður vegna þessara mótvægisaðgerða hafi numið rúmlega 13,7 milljörðum króna á árunum 2007–2010. Áætlun stjórnvalda hafi hins vegar gert ráð fyrir nokkuð minni kostnaði eða rúmlega 13,2 milljörðum króna. Ekki verði annað séð en að aðgerðirnar hafi almennt gengið eftir í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar og fjárveitingar vegna þeirra hafa að mestu verið fullnýttar, eins og að var stefnt. Aftur á móti gagnrýnir Ríkisendurskoðun stjórnvöld fyrir að hafa ekki metið árangur aðgerðanna með heildstæðum hætti.

Ríkisendurskoðun beinir því til forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis að ávallt sé haldið vel utan um dýrar og viðamiklar sértækar aðgerðir sem stjórnvöld ráðast í. Setja verði skýr markmið fyrir hverja aðgerð, skilgreina mælikvarða á árangur og ákveða hver skuli bera ábyrgð. Mikilvægt sé að gerðar séu framvinduskýrslur þar sem árangur aðgerða sé metinn og fylgst með því að fjármunum sé varið eins og til er ætlast. Einnig sé mikilvægt að gerð sé lokaskýrsla þegar aðgerðum lýkur þar sem heildarárangur þeirra sé metinn. Þá þurfi jafnan að gera skýra grein fyrir fjárveitingum til aðgerða í fjárlögum og eftir atvikum fjáraukalögum. Enn fremur er að mati Ríkisendurskoðunar mikilvægt að þegar stjórnvöld hyggjast ráðstafa verulegum fjármunum til verkefna á borð við framangreindar mótvægisaðgerðir þá sé slík áætlun staðfest af Alþingi í formi þingsályktunar.