Ársreikningar kirkjugarða og sókna 2009

Ríkisendurskoðun hefur birt yfirlit um ársreikninga kirkjugarða og sókna fyrir árið 2009. Yfirlitin voru lögð fram á kirkjuþingi í nóvember sl.Ríkisendurskoðun annast lögboðið eftirlit með ársreikningum kirkjugarða og sókna. Kirkjugarðsstjórnum og sóknum ber að senda ársreikninga sína til stofnunarinnar fyrir 1. júní ár hvert. Hún skráir reikningana inn í sérstakan gagnagrunn og tekur árlega saman yfirlit um þá sem lögð eru fyrir kirkjuþing.
Í Yfirliti um ársreikninga kirkjugarða vegna ársins 2009 kemur fram að í hinum 12 prófastsdæmum landsins eru 243 kirkjugarðar sem eiga að skila ársreikningum til Ríkisendurskoðunar. Í byrjun nóvember 2010 höfðu stofnuninni borist ársreikningar 211 þeirra vegna ársins 2009.
Í Yfirliti um ársreikninga sókna vegna ársins 2009 kemur fram að í árslok 2009 voru 273 sóknir starfandi í landinu. Í byrjun nóvember 2010 höfðu Ríkisendurskoðun borist ársreikningar frá 256 þeirra vegna ársins 2009. Þar af voru 5 svo ófullkomnir að ekki var hægt að skrá þá í gagnagrunn stofnunarinnar en ársreikningum 17 sókna hafði ekki verið skilað.