Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005

By 14.03.2006 2006 No Comments

Út er komin Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2005. Þar er m.a. gerð grein fyrir verkefnum stofnunarinnar og helstu markmiðum, starfseminni árið 2005 og völdum lykiltölum í rekstri. Þá horfir ríkisendurskoðandi yfir farinn veg, auk þess sem fjórir starfsmenn stofnunarinnar lýsa hlutverki stofnunarinnar, aðferðum og verklagi við endurskoðun.
Með Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fylgir sundurliðaður ársreikningur og kemur þar m.a. fram að stofnunin skilaði um 18 m.kr. tekjuafgangi árið 2005. Alls jukust heildargjöld hennar um 10,6% frá 2004, mest vegna aukins launakostnaðar. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar óverulega. Þá urðu sértekjur heldur minni en árið 2004.

Hinn 31. desember 2005 voru fastráðnir starfsmenn Ríkisendurskoðunar alls 49 og er það sami fjöldi og árið áður. Unnum ársverkum við endurskoðun fjölgaði þó um rúmlega eitt. Afrakstur ársins varð heldur minni en árið 2004 og má m.a. rekja það til innleiðingar nýs fjárhagskerfis ríkisins sem olli því að endurskoðun stofnana tók að jafnaði lengri tíma en áður. Búist er við að úr þessu rætist á þessu ári.

Í Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar er m.a. gerð grein fyrir tveimur viðhorfskönnunum sem gerðar voru á gæðum opinberra skýrslna hennar. Niðurstöður þessara kannana voru í meginatriðum jákvæðar fyrir stofnunina, um leið og þær eru henni hvatning til að gera enn betur. Þá bendir fjöldi opnaðra skýrslna á heimasíðum stofnunarinnar einnig til þess að áhugi almennings á þeim fari vaxandi.