Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2007

By 1.04.2008 2008 No Comments

Ríkisendurskoðun tókst í meginatriðum að fylgja áætlun um verkefnafjölda og verkefnaskil á árinu 2007 þrátt fyrir heldur færri vinnustundir en gert var ráð fyrir. Stofnunin áritaði ársreikninga allra ríkisaðila og mikilvægustu viðfangsefna og sendi frá sér fleiri skýrslur og greinargerðir en undanfarin tvö ár.
Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér ársskýrslu sína fyrir árið 2007. Auk formála ríkisendurskoðanda, þar sem rakin er þróun stofnunarinnar síðastliðin 20 ár, er þar m.a. greint frá stöðu hennar og hlutverki innan ríkiskerfisins og umsvifum og árangri á liðnu ári. Þá eru þar fjórar stuttar greinar sem varða starfsemi stofnunarinnar og ríkisendurskoðana almennt. Að lokum fylgir með sundurliðaður ársreikningur stofnunarinnar.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að ársverkum Ríkisendurskoðunar fækkaði um tvö frá árinu 2006. Vegna aukinnar skilvirkni starfsmanna héldust afköst hennar þó óbreytt, auk þess sem hún náði að ljúka áritun reikningsskila fyrr á árinu en nokkru sinni fyrr. Alls áritaði hún 328 ársreikninga stofnana og fyrirtækja ríkisins, samdi 230 endurskoðunarskýrslur og sendi frá sér 24 aðrar skýrslur og greinargerðir, þar af 14 opinberar. Mælingar á áhuga almennings á þeim skýrslum stofnunarinnar sem lagðar eru á netið og viðbrögðum stofnana og stjórnvalda við ábendingum hennar sýna einnig að stofnunin getur vel við unað.