Ásættanleg viðbrögð Þjóðskrár Íslands

Ríkisendurskoðun telur að Þjóðskrá Íslands (áður Fasteignaskrá Íslands) hafi brugðist með ásættanlegum hætti við athugasemd frá árinu 2013 um að stofnuninni beri að gæta hagkvæmni í launamálum. Telst málinu því lokið.

Í skýrslu sinni Verktakagreiðslur hjá Fasteignaskrá (2010) beindi Ríkisendurskoðunar athygli að verktakagreiðslum stofnunarinnar (nú Þjóðskrá Íslands) til einkahlutafélags í eigu eins starfsmanns hennar. Að mati Ríkisendurskoðunar báru þær ýmis merki „gervivertöku“  og því var Fasteignaskrá Íslands bent á að stofnuninni bæri að fylgja reglum skattayfirvalda um mun á verkatakvinnu og launavinnu. Einnig var Fasteignaskrá bent á að ríkisaðilum bæri jafnan að auglýsa laus störf til umsóknar.

Í eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar árið 2013 var greint frá því að Þjóðskrá Íslands, sem tekið hafði við verkefnum Fasteignaskrár, hefði brugðist við athugasemdum Ríkisendurskoðunar frá 2010. Engu að síður taldi Ríkisendurskoðun rétt að beina nýrri ábendingu til Þjóðskrár um þörf á að gæta hagkvæmni í launamálum og gæta þess að sannarlega væri þörf fyrir þá yfirvinnu sem greitt væri fyrir og hún væri unnin.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu kemur fram að sú launasamsetning sem gerð hafði verið athugasemd við árið 2013 hefði verið yfirfarin og henni breytt.