Átak í eftirliti með ráðuneytum og stofnunum

By 25.02.2009 2009 No Comments

Vegna breyttra aðstæðna í ríkisfjármálunum gerir Ríkisendurskoðun nú átak í eftirliti með fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana.
Að undanförnu hafa aðstæður í ríkisfjármálunum breyst til hins verra vegna þrenginga í efnahagslífi landsins. Í fjárlögum ársins 2009 voru fjárheimildir margra stofnana lækkaðar miðað við upphaflegt fjárlagafrumvarp. Af þessum sökum þarf nú víða að skera niður í rekstri og beita margvíslegu kostnaðaraðhaldi.

Í ljósi þessara breyttu aðstæðna hefur Ríkisendurskoðun nú ákveðið að gera sérstakt átak í eftirliti með fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana. Annars vegar verður lagt mat á eftirlit ráðuneyta með áætlanagerð stofnana og framkvæmd fjárlaga hjá þeim. Hins vegar verða kannaðir ýmsir þættir fjármálastjórnar hjá völdum stofnunum og hugsanleg áhrif niðurskurðar á þjónustu þeirra.

Á næstunni munu starfsmenn Ríkisendurskoðunar funda með fulltrúum ráðuneyta og stofnana og afla ýmissa upplýsinga. Stefnt er að því að átakinu ljúki í apríl og að niðurstöður verði birtar í opinberri skýrslu.

Ríkisendurskoðandi hefur sent ráðuneytunum bréf þar sem átakið er kynnt.