Athugasemd frá Ríkisendurskoðun: Rangfærslur leiðréttar

Í grein Gísla Páls Pálssonar, formanns Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, „Tugmilljarðar greiddir úr ríkissjóði en engir samningar“, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, 29. nóvember, koma fram rangfærslur sem brýnt er að leiðrétta.Í greininni bendir Gísli á að ekki eru í gildi skriflegir þjónustusamningar við öldrunarstofnanir þótt þær fái regluleg framlög úr ríkissjóði. Óskar höfundur skýringa á því af hverju Ríkisendurskoðun hafi ekki gripið til „viðeigandi ráðstafana“ vegna þessa og sakar stofnunina um „ótrúlega linkind“ í þessum efnum.

Af þessu tilefni minnir Ríkisendurskoðun á opinbera skýrslu sína til Alþingis um þjónustusamninga við öldrunarheimili (maí 2013). Þar vekur Ríkisendurskoðun athygli á og gagnrýnir að ráðuneyti heilbrigðismála hafi aðeins gert þjónustusamninga við átta af 73 öldunarheimilum þó að framlög ríkissjóðs til þeirra árið 2013 nemi 22,3 ma.kr. Sömuleiðis gagnrýnir stofnunin hve lítið hafi þokast í samningagerð við heimilin undanfarin ár. Loks beinir hún eftirfarandi ábendingu til ráðuneytisins:

Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneyti til að gera þjónustusamninga við öll öldrunarheimili til að öðlast betri yfirsýn og bæta stjórnun sína á málaflokknum. Þetta mun m.a. stuðla að meiri jöfnuði og gæðum í þjónustunni notendum til hagsbóta og auðvelda samninga um flutning hennar til sveitarfélaga.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu fengu drög að þessari skýrslu til umsagnar.

Í þessu samhengi ber einnig að vekja athygli á áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis frá 31. október sl. vegna umfjöllunar Ríkisendurskoðunar. Þar segir m.a. svo:

Nefndin áréttar að mikilvægt er að vanda til verka við samningsgerð en bendir jafnframt á að Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þjónustusamningar liggi fyrir og hvatt ráðuneyti heilbrigðismála til að gera slíka samninga. Nefndin átelur að ekki hafi verið fyrr gripið til markvissra aðgerða til að mæta ábendingum stofnunarinnar.

Það er því alrangt að Ríkisendurskoðun hafi ekki gert það sem í hennar valdi stendur til að koma samningamálum öldrunarstofnana í betra horf en verið hefur.
Í þessu sambandi má raunar benda á að Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis og telst hluti af starfsemi þess. Af þessu leiðir að hún er ekki stjórnvald og telst ekki hluti af stjórnsýslu ríkisins. Stofnunin fer því ekki með framkvæmdarvald. Lögbundið hlutverk hennar felst annars vegar í eftirliti með fjárreiðum ríkisins og þeirri starfsemi sem rekin er á kostnað ríkissjóðs og hins vegar í stjórnsýsluendurskoðun. Eitt helsta markmið stjórnsýsluendurskoðunar er skv. lögum að „vekja athygli [stjórnvalda] á því sem hún telur að úrskeiðis hafi farið í rekstri og benda þeim á þau atriði sem hún telur að athuga þurfi með tilliti til úrbóta“.
Ríkisendurskoðun telur að hún hafi sinnt þessu hlutverki með athugasemdum sínum og ábendingum um þjónustusamninga öldrunarheimila. Yfir öðrum úrræðum býr hún ekki lögum samkvæmt. Vegna samskipta Ríkisendurskoðunar við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu að undanförnu hlýtur greinarhöfundi að vera fullkunngt um að stofnunin hefur ekki boðvald gagnvart stjórnvöldum eða vald til þess að grípa til einhverra sérgreindra aðgerða gagnvart þeim.