Athugasemd vegna fjölmiðlaumræðu

Vegna umræðu í fjölmiðlum að undanförnu um málefni tengd einkavæðingu ríkisbankanna vill Ríkisendurskoðun koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.Í ársbyrjun 2001 fól forsætisnefnd Alþingis, að frumkvæði þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Ríkisendurskoðun að gera úttekt á störfum framkvæmdanefndar um einkavæðingu með sérstakri hliðsjón af sölu Landssímans hf. Mál þróuðust á þann veg að úttektin náði til sölu átta ríkisfyrirtækja á tímabilinu 1998–2003, þ. á m. ríkisbankanna tveggja: Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.
Tilgangur úttektarinnar var m.a. að meta hvort tímasetning sölu hefði verið ákjósanleg með tilliti til markaðsaðstæðna, hvort val á söluaðferð hefði þjónað settum markmiðum og hvort eðlilega hefði verið staðið að mati á kauptilboðum. Í úttektinni var rætt við fjölmarga aðila sem komu að ferlinu og margvíslegra gagna aflað. Niðurstöður hennar gáfu Ríkisendurskoðun tilefni til eftirfarandi gagnrýni á það hvernig staðið var að sölu á ráðandi hlutum í ríkisbönkunum.

  • Sú tilhögun að auglýsa ráðandi hlut í bæði Landsbankanum og Búnaðarbankanum á sama tíma var óheppileg þar sem ekki var komin reynsla á þá söluaðferð sem valin var. Þá gaf þessi tilhögun minni möguleika en ella hefðu verið á að viðhalda samkeppni milli áhugasamra kaupenda.
  • Tímasetning sölunnar á ráðandi hlut í Búnaðarbankanum vekur spurningar þar sem gengi hlutabréfa í bankanum var lágt þegar hún fór fram en tók síðar að hækka.
  • Æskilegt hefði verið að fyrr í söluferlinu hefðu legið fyrir nákvæmari og skýrari upplýsingar um þau atriði sem réðu úrslitum um að ákveðið var að ganga til samninga við Samson ehf. um kaup á ráðandi hlut í Landsbankanum. Að minnsta kosti hefði þurft að liggja fyrir leiðbeining um innbyrðis vægi viðmiða sem notuð voru til að meta bjóðendur.

Þá setti Ríkisendurskoðun fram nokkrar tillögur um úrbætur á verklagi og aðferðum við einkavæðingu ríkisfyrirtækja. M.a. benti stofnunin á að í verklagsreglum þyrfti að koma fram hvernig tilkynna ætti um það ef „sérstök sjónarmið‘‘ réðu mati á tilboðum. Á þann hátt væri tryggt að þeir sem legðu vinnu í tilboð fengju upplýsingar um það hvaða reglur yrðu notaðar við að meta tilboðin áður en þeim væri skilað eða þau opnuð.
Að öðru leyti vísar Ríkisendurskoðun í skýrslu úttektarinnar Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003 sem og Greinargerð um útboð á fjórðungshlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf.

Athugun á eignaraðild þýsks banka að Eglu hf.

Snemma árs 2006 kannaði stofnunin hvort eitthvað væri hæft í fullyrðingum, sem þá höfðu komið fram á opinberum vettvangi, um að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA hefði í raun aldrei átt helmingshlut í Eglu hf. sem keypt hafði stóran eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. af ríkinu þremur árum fyrr. Eignaraðild erlends banka að Eglu var ein af þeim röksemdum sem þáverandi stjórnvöld færðu fyrir ákvörðun sinni um að selja félaginu og tengdum aðilum, svokölluðum S-hópi, samtals 45,8% hlut í Búnaðarbankanum.
Til að ganga úr skugga um sannleiksgildi áðurnefndra fullyrðinga aflaði Ríkisendurskoðun margvíslegra skriflegra gagna, bæði innlendra og erlendra. Að mati stofnunarinnar tala þau skýru máli um það að fullyrðingarnar áttu ekki við rök að styðjast.
Sjá nánar meðfylgjandi skjöl: