Athugasemd vegna fréttaflutnings um málefni Keilis

Ríkisendurskoðun hefur sent fjölmiðlum eftirfarandi ábendingar vegna opinberra ummæla sem framkvæmdastjóri Keilis ehf. hefur látið falla um skýrslu stofnunarinnar.Skýrslur Ríkisendurskoðunar birta niðurstöður stofnunarinnar í heild og ekki einstakra starfsmanna, eins og framkvæmdastjóri Keilis gefur í skyn. Ríkisendurskoðandi ber ábyrgð á þeim eins og öðrum verkum stofnunarinnar.
Ríkisendurskoðun hvetur til þess að skýrsla hennar um Keili sé lesin í heild sinni. Að öðru leyti vill hún taka fram: Á árunum 2008 og 2009 gerðu menntamálaráðuneyti, Háskóli Íslands og Keilir samninga um 235,6 m.kr. framlag ríkisins til frumgreinakennslu Keilis þessi ár. Af þeim verður ekki annað ráðið en að féð hafi eingöngu átt að renna til frumgreinakennslunnar. Athugun Ríkisendurskoðunar leiddi hins vegar í ljós að Keilir nýtti hluta þess í aðra starfsemi skólans og staðfesti framkvæmdastjóri Keilis það í bréfi til stofnunarinnar 16. ágúst 2010. Þar segir m.a. að hluti þess hafi verið notaður „í almennt starf skólans, þ.m.t. aðrar náms­brautir viðurkenndar. Má þar nefna ÍAK einkaþjálfara, frumkvöðlanám, orku­skóla, bók­legt atvinnuflug, flugumferðarstjórn, flugfreyjur, auk Háskólabrúar”. Að mati Ríkisendurskoðunar felur þetta í sér skýlaust brot á fyrrnefndum samningum og hefur ráðuneytið lýst sig sammála þeirri túlkun.
Í árslok 2009 nam uppsafnaður halli af rekstri Keilis 136 m.kr. en heildarskuldir um 463 m.kr. Samkvæmt upplýsingum frá Keili er áætlaður rekstrarafgangur ársins 2010 10 m.kr. en ljóst er að afborganir langtímaskulda munu nema um 60 m.kr. á árinu. Uppsafnað tap á frumgreinanámi skólans nam 95,8 mkr. fyrir árin 20072009 þrátt fyrir að framlög ríkisins til námsins hafi verið síst minni en til annarra aðila sem sinna frumgreinakennslu. Sem eftirlitsstofnun Alþingis gat Ríkisendurskoðun því ekki annað en lýst áhyggjum sínum vegna rekstrarstöðu skólans. Einnig hlaut hún að vekja athygli á því að lögum sam­kvæmt eru stjórnvöld ekki skuldbundin til að veita einka­skólum á borð við Keili framlög eða styrki af al­mannafé nema samið hafi verið sérstaklega við þá um tiltekna þjón­ustu. Þeim ber sjálf­um að tryggja eigið rekstr­ar­öryggi og standa skil á fjár­hags­legum skuldbindingum sínum.
Að lokum skal þess getið að samkvæmt vinnureglum Ríkisendurskoðunar fá þeir aðilar sem stjórnsýsluúttektir beinast að ávallt send drög að skýrslum til athugasemda. Þessi háttur var einnig hafður á vegna úttektarinnar á Keili og fengu forsvarsmenn skólans síst skemmri umsagnarfrest en aðrir sem áttu hlut að máli, þ.e. mennta- og menningarmálaráðuneyti og Háskóli Íslands sem Ríkisendurskoðun beindi einnig ábendingum til. Eins og ævinlega fór Ríkisendurskoðun vandlega yfir þær athugasemdir sem bárust og tók eftir atvikum tillit til þeirra við vinnslu endanlegrar skýrslu. Ekki er venja að málsaðilar fái lokagerð skýrslna til yfirlestrar. Keilir fékk hins vegar að sjá þær ábendingar sem beindust sérstaklega að honum í endanlegri gerð og eru viðbrögð skólans við þeim birt í skýrslu Ríkisendurskoðunar.