Athugasemd vegna fréttar mbl.is um málefni Menntaskólans Hraðbrautar

Í frétt mbl.is í gær, 26. október, er því haldið fram að í greinargerð Ríkisendurskoðunar um málefni Hraðbrautar komi fram rangar tölur um ofgreidd ríkisframlög til skólans. Af þessu tilefni vill stofnunin koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.Ríkisframlög til framhaldsskóla miðast við fjölda svokallaðra nemendaígilda. Á tímabilinu 2003–2009 var fjöldi nemendaígilda hjá Hraðbraut verulega undir áætlun. Skólinn fékk hins vegar greitt miðað við áætlunina. Samtals námu ofgreidd ríkisframlög til skólans 192 milljónum króna á tímabilinu, samkvæmt útreikningi Ríkisendurskoðunar sem birtur er í greinargerðinni.
Ríkisendurskoðun telur að ekki hafi verið sýnt fram á að útreikningur stofnunarinnar á ofgreiddum ríkisframlögum til Hraðbrautar sé rangur. Stofnunin stendur við þennan útreikning.
Framlög til Hraðbrautar byggjast á þjónustusamningi skólans við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Eftir að greinargerð Ríkisendurskoðunar var birt reis ágreiningur milli samningsaðila um túlkun á ákvæðum hans um fjárveitingar. Forsvarsmenn Hraðbrautar halda því fram að samkvæmt samningnum hafi ríkið átt að greiða tiltekna fasta fjárhæð á ári til skólans vegna húsaleigu. Sé fallist á þetta sjónarmið lækka ofgreidd framlög til skólans um 10–15% miðað við útreikning í greinargerð Ríkisendurskoðunar.
Ofgreidd framlög til Hraðbrautar námu 126,1 milljón króna á tímabilinu 2004–2006. Forsvarsmenn Hraðbrautar og ráðuneytið hafa gert með sér samkomulag um að þessi skuld verði lækkuð um 92,1 milljón króna. Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið hafi ekki heimild til að gefa skuldina eftir.
Í greinargerð Ríkisendurskoðunar kemur fram að eftirliti með framkvæmd þjónustusamnings ráðuneytisins við Hraðbraut hafi verið verulega ábótavant. Fjárhagslegt uppgjör hafi aldrei farið fram þrátt fyrir skýrt ákvæði í samningnum. Ríkisendurskoðun áréttar að mikilvægt er að stjórnvöld hafi virkt eftirlit með framkvæmd samninga sem þau hafa gert við aðila utan ríkiskerfisins og fela í sér fjárframlög í skiptum fyrir tiltekna þjónustu. Ólíðandi er að þeir aðilar sem selja ríkinu þjónustu fái ofgreitt fyrir hana svo jafnvel muni tugum prósenta. Enn alvarlegra er ef slíkar ofgreiðslur uppgötvast ekki fyrr en mörgum árum eftir að stjórnvöld inntu þær af hendi.