Athugasemd vegna fréttar um málefni Álftaness

Í frétt Pressunnar í dag koma fram rangar upplýsingar um athugun Ríkisendurskoðunar á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins Álftaness.Af frétt Pressunnar má skilja að Ríkisendurskoðun telji að Álftanes eigi að fá hærri framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að kosta rekstur grunnskóla. Þá segir að Á-listinn hafi fengið Ríkisendurskoðun til að gera úttekt á aðstöðu sveitarfélagsins til að standa undir útgjöldum til fræðslumála.
Hið rétta er að í ársbyrjun fólu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) Ríkisendurskoðun að gera athugun á fjárhagsstöðu Álftaness. Skyldi athugunin beinast að tveimur atriðum. Annars vegar að því hvort gildandi reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla tækju nægjanlegt tillit til aðstæðna á Álftanesi. Hins vegar að því hvaða ákvarðanir væru undirrót erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og hvort þær og upplýsingagjöf þess til EFS hefðu verið í samræmi við lög.
Til stóð að ljúka athuguninni um miðjan júní en það náðist ekki þar sem vinnan reyndist umfangsmeiri en talið var. Nýlega sendi Ríkisendurskoðun hlutaðeigandi aðilum drög að skýrslu athugunarinnar til umsagnar. Óskað var eftir því að farið yrði með þau sem trúnaðarmál. Upphaflega höfðu aðilar frest til 25. júní sl. til að skila athugasemdum við drögin en að ósk nokkurra þeirra var fresturinn framlengdur til 15. júlí nk.
Ríkisendurskoðun mun birta skýrsluna eins fljótt og auðið er, eða þegar búið verður að taka afstöðu til allra hugsanlegra athugasemda við drögin. Fyrr munu endanlegar niðurstöður ekki liggja fyrir. Ekki er rétt, sem gefið er í skyn í frétt Pressunnar, að Ríkisendurskoðun telji að Álftanes eigi að fá hærri framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Að öðru leyti mun stofnunin ekki tjá sig um efni skýrslunnar fyrr en hún verður birt opinberlega.