Athugasemdir gerðar við háar launagreiðslur til yfirmanns hjá Þjóðskrá

Þjóðskrá Íslands (áður Fasteignaskrá Íslands) hefur með formlegum hætti brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010. Ábendingarnar vörðuðu verktakagreiðslur til einkahlutafélags sem falið var að stýra tölvudeild Fasteignaskrár. Að mati Ríkisendurskoðunar bar þetta fyrirkomulag ýmis merki svokallaðrar gerviverktöku. Eigandi félagsins var sama ár ráðinn yfirmaður tölvudeildar Fasteignaskrár. Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við háar launagreiðslur til hans á árunum 2011 ̶ 2012.Í mars 2010 beindi Ríkisendurskoðun tveimur ábendingum til Fasteignaskrár Íslands (nú Þjóðskrá Íslands) vegna verktakagreiðslna stofnunarinnar til tiltekins einkahlutafélags. Samkvæmt verksamningi skyldi félagið m.a. veita tölvudeild stofnunarinnar forstöðu, stýra rekstri gagnagrunna og tölvukerfa hennar og annast ýmsa áætlanagerð í þessu sambandi. Að mati Ríkisendurskoðunar bar fyrirkomulagið ýmis merki svokallaðrar gerviverktöku en í henni felst að einstaklingur þiggur verktakagreiðslur fyrir störf sem í eðli sínu eru venjuleg launavinna. Greiðslur samkvæmt samningnum runnu þannig til nafngreinds einstaklings sem hafði aðstöðu hjá Fasteignaskrá, aðgang að búnaði stofnunarinnar og naut aðstoðar starfsmanna hennar endurgjaldslaust. Fjárhagsleg ábyrgð hans og áhætta af verkinu var því lítil eða engin.

Ríkisendurskoðun benti á að Fasteignaskrá Íslands bæri að fylgja reglum skattyfirvalda um þann greinarmun sem gerður er á verktöku og launavinnu. Þá bæri ríkisaðilum jafnan að auglýsa laus störf. Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Fasteignaskrá hafi þegar árið 2010 gert úrbætur vegna þessara ábendinga. Meðal annars hafi fyrrnefndum verksamningi verið sagt upp og starf forstöðumanns tölvudeildar auglýst. Ríkisendurskoðun lítur svo á að með þessu hafi verið brugðist við ábendingunum með formlegum hætti.

Eigandi umrædds einkahlutafélags var einn þeirra sem sóttu um starf forstöðumanns tölvudeildar Fasteignaskrár og var hann ráðinn. Í eftirfylgniskýrslunni gerir Ríkisendurskoðun athugasemd við háar launagreiðslur til hans á árunum 2011 ̶ 2012. Fram kemur að þvert á það sem hafi mátt vænta hafi greiðslur til hans í heild lítið breyst eftir að hann varð launþegi og stofnunin hóf að bera ýmsan launatengdan kostnað sem verktakar bera jafnan sjálfir. Þá kemur einnig fram að vegna hárra yfirvinnugreiðslna hefur umræddur starfsmaður verið hæstlaunaði starfsmaður stofnunarinnar, að forstjóra hennar meðtöldum. Laun hans hafi enda tekið mið af launum hjá tryggingafélögum og bönkum og því verið talsvert hærri en laun sambærilegra starfsmanna þeirra stofnana ríkisins sem reka stærstu og flóknustu tölvukerfin.

Vegna þessa hvetur Ríkisendurskoðun forstjóra Þjóðskrár til að gæta hagkvæmni og ráðdeildar í rekstri, einnig þegar horft er til launamála. Í því sambandi beri honum m.a. að horfa til almennra launakjara opinberra starfsmanna, eins og fyrirheit voru gefin um í auglýsingu um starf forstöðumanns tölvudeildar árið 2010.