Athugasemdir Ríksendurskoðunar vegna greinargerðar um Grímseyjarferju

By 15.08.2007 2007 No Comments

Vegna yfirlýsingar sveitarstjórnar Grímseyjarhrepp vill Ríkisendurskoðun koma eftirfarandi á framfæri.
Ríkisendurskoðun getur fallist á að formsins vegna hefði verið heppilegt að stofnunin ræddi við sveitarstjórn Grímseyjarhrepps við úttekt á kaupum og endurbótum nýrrar Grímseyjarferju. Formleg samskipti sveitarstjórnar Grímseyjarhrepps við samgönguráðuneytið og Vegagerðina vegna málsins voru hins vegar nær engin. Almennt var um að ræða tölvupóstsamskipti og símtöl, þar sem Grímseyjarhreppur var ekki álitinn ákvörðunaraðili í málinu. Við vinnu sína hafði Ríkisendurskoðun aðgang að öllum slíkum tölvupóstsamskiptum, þar á meðal þeim tölvubréfum sem sveitarstjórn Grímseyjarhrepps vísar til í fyrrgreindri yfirlýsingu.

Ríkisendurskoðun getur á engan hátt fallist á þá efnislegu gagnrýni sem fram kemur í yfirlýsingu sveitarstjórnar Grímseyjarhrepps. Í fyrsta lagi er það mat Ríkisendurskoðunar að tillit hafi verið tekið til allra framkominna formlegra krafna Grímseyinga í verksamningi Vegagerðarinnar og Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. Í því tilliti er bent á að ráðgjafi Vegagerðarinnar sendi Brynjólfi Árnasyni, oddvita Grímseyjarhrepps, tölvupóst í október 2005 þar sem útlistað var hvernig komið yrði til móts við einstakar kröfur Grímseyinga. Svar Brynjólfs barst 14. október 2005 og segir þar orðrétt og án allra fyrirvara: „okkur líst bara vel á þessar tillögur.“ Hvað varðar þá fullyrðingu Ríkisendurskoðunar að Grímseyingar hafi lýst sig formlega samþykka kaupunum í nóvember 2005 er vísað til tölvupósts frá Brynjólfi Árnasyni frá 3. nóvember 2005 þar sem segir orðrétt og án allra fyrirvara: „Sveitarstjórn Grímseyjar er samþykk kaupunum á ferjunni.“

Í öðru lagi skal bent á að Ríkisendurskoðun getur ekki miðað umfjöllun sína um kostnað vegna endurbóta við annað en 60 m.kr. áætlun sem lögð var fyrir ríkisstjórn og 99 m.kr. verksamning Vegagerðarinnar og Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. Allar breytingar á ferjunni sem falla utan verksamnings teljast þannig til aukaverka. Í gögnum frá Vegagerðinni kemur fram að kostnaður vegna breytinga sem gerðar voru vegna krafna Grímseyinga eftir að verksamningur var undirritaður nam í byrjun júlí 2007 um 395 þús. evrum eða um 32 m.kr. eins og fram kemur í greinargerð Ríkisendurskoðunar. Þar er einkum um að ræða viðbótarkostnað vegna losunar- og lestunarbúnaðar.

Þá er ljóst að töluverður hluti þeirra aukaverka, sem nú standa yfir, á eftir að vinna eða taka afstöðu til, er til kominn vegna krafna Grímseyinga eftir að kaup voru gerð og verksamningur undirritaður. Þar má nefna endurnýjun á þiljum og innréttingum íbúða áhafnar, kýraugu á neðri farþegasal, plasthurðir í efri farþegasal, inngangur vélstjóra í vélarúm, uglu fyrir landgang, fjarstýringu á krana, rafknúna og farstýrða davíðu fyrir léttabát, fullkomið sjónvarps- og hljóðkerfi, eftirlitsmyndavélakerfi, kælingu í lestarrými, landtengingu fyrir rafmagn, endurnýjun á öllum búnaði og innréttingum í stýrishúsi, flugstóla í efra farþegarými o.fl. Ríkisendurskoðun lítur svo á að allar kröfur Grímseyinga eftir áðurnefnda yfirlýsingu frá 3. nóvember 2005 séu síðbúnar. Stofnunin tekur hins vegar ekki afstöðu til þess hvort þessar kröfur séu í sjálfu sér réttmætar.

Umfjöllun um þörf fyrir burðargetu byggir á gögnum frá Vegagerðinni og samgönguráðuneytinu. Sé innbyrðis ósamræmi í þeim mælingum milli Vegagerðarinnar annars vegar og Grímseyinga hins vegar er ljóst að endurskoða verður framkvæmd þeirra mælinga.

Ríkisendurskoðun vill ítreka gagnrýni sína á skort á undirbúningi fyrir kaupin á ferjunni. Sú gagnrýni sneri ekki einungis að skoðun á þeirri ferju sem síðar var keypt, eins og helst hefur verið rætt í fjölmiðlum, heldur ekki síður að mati á því hvers væri þörf. Skortur á þarfagreiningu fyrir kaupin og gerð verksamnings gerði að verkum að á síðari stigum breyttust flestar forsendur kaupanna. Aðkoma Grímseyinga að þeirri vinnu hefði verið algjört lykilatriði. Í greinargerð Ríkisendurskoðunar segir enda orðrétt: „Að mati Ríkisendurskoðunar var afar óheppilegt að ekki var hrint í framkvæmd tillögu nefndarinnar um að skipa starfshóp með fulltrúa heimamanna til að kanna kaup á notaðri eða nýrri ferju. Líklegt verður að telja að skipan slíks hóps hefði stuðlað að vandaðri undirbúningi en ella.“