Athugasemdir við innkaup hjá VMSÍ

Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við innkaup hjá Varnarmálastofnun Íslands (VMSÍ).Í júlí sl. óskaði utanríkisráðuneytið eftir því að Ríkisendurskoðun kannaði hvort tilteknar ákvarðanir VMSÍ hefðu brotið í bága við lög. Annars vegar ákvarðanir um ráðningu starfsmanna en hins vegar um kaup á búnaði.
Samkvæmt lögum ber VMSÍ að hafa samráð við utanríkisráðuneytið ef hún hyggst ráða starfsmenn til tímabundinna starfa. Vildi ráðuneytið fá mat á því hvort stofnunin hefði rækt þessa skyldu með fullnægjandi hætti. Einnig vildi ráðuneytið fá svör við því hvort kaup á símkerfi, rafjöfnunarbúnaði og dráttarvél hefðu verið í samræmi við lög um opinber innkaup og hvort starfsmenn sem tóku þær ákvarðanir hefðu hugsanlega verið vanhæfir vegna fjölskyldu- og vinatengsla.
Ríkisendurskoðun ákvað að verða við ósk utanríkisráðuneytisins og eru niðurstöður athugunarinnar í meginatriðum eftirfarandi:

  •  Ráðning starfsmanna

Að mati Ríkisendurskoðunar er það er utanríkisráðuneytisins að meta hvort VMSÍ hafi haft fullnægjandi samráð við það þegar hún réð starfsmenn til tímabundinna starfa.

  • Kaup á símkerfi og rafjöfnunarbúnaði

Við kaup á símkerfi og rafjöfnunarbúnaði nýtti VMSÍ sér heimild í lögum til að víkja frá útboðsskyldu þegar öryggishagsmunir ríkisins eru taldir í húfi. Að mati Ríkisendurskoðunar hefði stofnunin átt að hafa samráð við fjármálaráðuneytið áður en hún ákvað að nýta þessa heimild. Ríkisendurskoðun telur að eðlilegra hefði verið að bjóða kaupin út en gera jafnframt vissar öryggiskröfur til bjóðenda. Hins vegar telur Ríkisendurskoðun að þeir stjórnendur og starfsmenn sem tóku umræddar ákvarðanir hafi ekki verið vanhæfir til að gera það. Loks eru gerðar athugasemdir við skjalavistun hjá VMSÍ vegna umræddra mála.

  • Kaup á dráttarvél

Að mati Ríkisendurskoðunar hefði VMSÍ átt að hafa samráð við Ríkiskaup áður en hún ákvað að nýta sér heimild í lögum til að víkja frá útboðsskyldu þegar vörur eru á taldar sérlega góðum kjörum.