Athugun á kaupum forsætisráðuneytisins á sérfræðiþjónustu

Ríkisendurkoðun gerir ekki athugasemdir við kaup forsætisráðuneytisins á sérfræðiþjónustu haustið 2008 sem tengdust bankahruninu. Aftur á móti þarf ráðuneytið að endurskoða almennt verklag sitt við kaup á sérfræðiþjónustu. Í byrjun mars sl. fór forsætisráðuneytið þess á leit við Ríkisendurskoðun að stofnunin athugaði samninga ráðuneytisins um kaup á sérfræði- og ráðgjafarþjónustu, einkum þá sem gerðir voru í kjölfar bankahrunsins. Í bréfi stofnunarinnar til forsætisráðherra, dags. 22. júní sl., kemur fram að umræddir samningar byggjast yfirleitt ekki á útboðum eins og reglur kveða á um. Ekki er þó gerð athugasemd við að ráðuneytið skuli ekki hafa efnt til útboða vegna kaupa á þjónustu haustið 2008, enda heimila lög um opinber innkaup að sneitt sé hjá útboði ef um aðkallandi neyðarástand er að ræða. Hins vegar telur stofnunin að ráðuneytinu hafi borið að bjóða út þjónustu sem keypt var síðar eða þegar telja má að neyðarástand hafi verið liðið hjá.

Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið þurfi að endurskoða verklag sitt við kaup á sérfræði- og ráðgjafarþjónustu. Leiki vafi á því hvort kaup séu útboðsskyld eigi ráðuneytið að leita ráða hjá Ríkiskaupum. Í tengslum við athugunina óskaði Ríkisendurskoðun eftir því við Ríkiskaup að gefnar yrðu út stuttar leiðbeiningar um kaup á ráðgjöf og fylgdu þær með bréfinu.