Auka þarf aga í fjárlagaferlinu

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi benti á leiðir til að auka aga og aðhaldssemi í fjárlagaferlinu á morgunverðarfundi sem Ríkisendurskoðun stóð að ásamt fleirum á Grand Hóteli í dag.Ráðuneytin þurfa að gefa stofnunum sínum skýr fyrirmæli um samdrátt þjónustu og hafa öflugt eftirlit með því að áætlanir þeirra standist. Einnig þarf að styrkja vald fjármálaráðuneytisins sem eins konar fjármálastjóra ríkisins. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Sveins Arasonar ríkisendurskoðanda á morgunverðarfundi Ríkisendurskoðunar, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í dag. Fundurinn, sem var fjölsóttur, bar yfirskriftina „Betri stjórn á útgjöldum ríkisins: Hverju þarf að breyta?‘‘.
Í erindi sínu rakti Sveinn þær athugasemdir sem Ríkisendurskoðun hefur gert við framkvæmd fjárlaga hér á landi. Einnig fjallaði hann um tillögur stofnunarinnar sem miða að því að auka aga og aðhaldssemi í fjárlagaferlinu.
Eitt af lögbundnum verkefnum Ríkisendurskoðunar er að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Undanfarna tvo áratugi hefur stofnunin á hverju ári gagnrýnt ráðneyti og stofnanir fyrir að virða ekki heimildir fjárlaga, m.a. í skýrslum um framkvæmd fjárlaga og endurskoðun ríkisreiknings. Þá lagði stofnunin fyrir um áratug fram tillögur um breytingar á aðferðum við mótun og þinglega afgreiðslu fjárlaga í skýrslunni Fjárlagaferlið. Um útgjaldastýringu ríkisins.
Við upphaf fundarins flutti efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, ávarp en auk ríkisendurskoðanda fluttu erindi þau Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður og fulltrúi í fjárlaganefnd; Gylfi Zoëga, forstjóri Landspítalans; Örn Hauksson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu og Kristinn Hjálmarsson rekstrarráðgjafi. Fundarstjóri var Ásta Valdimarsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofunnar.