Auka þarf gagnsæi rannsóknarframlaga til háskóla og eftirlit með nýtingu þeirra

Ríkisendurskoðun telur að yfirvöld menntamála þurfi að skilgreina betur opinber framlög til rannsókna í háskólum til að bæta yfirsýn um þau. Einnig þurfi þau að efla eftirlit með nýtingu framlaganna og samræma mat á gæðum og árangri rannsókna. Þá þurfi yfirvöld að fylgja betur en þau gera nú stefnu Vísinda- og tækniráðs í málaflokknum og endurskoða fyrirkomulag opinberra fjárveitinga til háskóla. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um fjárveitingar ríkisins til rannsókna í háskólum og lagðar til ýmsar úrbætur á fyrirkomulagi, utanumhaldi og eftirliti með nýtingu þeirra. Fram kemur að erfitt sé að tilgreina nákvæmlega hversu miklu fé ríkið veitir háskólum árlega til rannsókna þar sem opinber fjármögnun málaflokksins sé í senn flókin og ógagnsæ. Þá veiti bókhald skólanna takmarkaða vitneskju um útgjöld þeirra til rannsókna. Þó megi ætla að heildarframlög ríkisins til „rannsókna og annars“ hafi numið nálægt 5,9 milljörðum árið 2010. Þar af hafi bein framlög numið um 4,5 milljörðum. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að framlög til rannsókna verði betur skilgreind en nú er í fjárlögum til að auka gagnsæi þeirra. Þá sé eðlilegt að háskólum verði gert að halda sérstaklega utan um hvernig þeir nýta þetta fé.

Fram kemur að til þessa hafi rannsóknarframlög ríkisins til háskólanna aðeins að litlu leyti verið tengd árangri þeirra á þessu sviði. Ekki hafi heldur verið innleitt samræmt mat á gæðum og árangri rannsókna og því sé erfitt að bera skólana saman. Ríkisendurskoðun telur brýnt að tekið verði upp samræmt matskerfi og bendir m.a. á þá leið sem Norðmenn hafa farið í þessu efni. Stofnunin hvetur mennta- og menningarmálaráðuneyti til að halda áfram athugun sinni á kostum þess að taka upp norska kerfið eða sambærilegt kerfi hér á landi.

Bent er á að undanfarin ár hafi ýmis skref verið stigin til að efla eftirlit með íslenskum háskólum. M.a. hafi verið tekið í notkun matskerfi fyrir akademíska starfsmenn opinberra háskóla og komið á fót sérstöku gæðaráði, skipuðu erlendum sérfræðingum, sem eigi að fylgjast með kennslu og rannsóknum í skólunum. Hingað til hafi ráðið einkum beint sjónum sínum að gæðum kennslu en Ríkisendurskoðun telur brýnt að ráðið gefi rannsóknum aukinn gaum. Sé það ekki talið gerlegt ber að mati stofnunarinnar að kanna möguleika á að skipa sérstakt gæðaráð rannsókna.

Vísinda- og tækniráði, sem skipað er forsætisráðherra og þremur öðrum ráðherrum, er ætlað að marka stefnu stjórnvalda í rannsóknamálum. Ráðið hefur hvatt til þess að framlögum til rannsókna verði í auknum mæli beint í opinbera samkeppnissjóði. Ekki hafa verið sett formleg viðmið um hlutfall samkeppnissjóða í opinberri fjármögnun rannsókna og raunar hefur hlutur þess fjár sem slíkir sjóðir úthluta minnkað nokkuð síðustu ár. Ríkisendurskoðun telur að miðað við núverandi fjárhagsstöðu háskóla gæti reynst torvelt að færa fé frá þeim til samkeppnissjóða. Hins vegar sé eðlilegt að kannað verði hvort og þá að hvaða marki megi beina nýju fjármagni til samkeppnissjóða, eins og gert hefur verið sums staðar á Norðurlöndum. Þá telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að stefnu Vísinda- og tækniráðs verði fylgt með markvissari hætti en gert hefur verið.

Fram kemur að um nokkurt skeið hafi menntayfirvöld áformað að endurskoða fyrirkomulag opinberra fjárveitinga til háskóla. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að slíkt verði gert hið fyrsta. Skoða eigi hvort ekki sé rétt að tvískipta rannsóknarframlögum til háskóla, annars vegar í grunnframlag og hins vegar í árangurs- og gæðatengt framlag.

Loks er í skýrslunni bent á að einungis fimm af sjö háskólum hér á landi hafi gert samning við ráðuneytið og að gildistími þriggja þeirra sé útrunninn. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að hraða endurnýjun samninganna og að birta þá opinberlega með aðgengilegum hætti.