Aukið eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum

Ekki þykir ástæða til að ítreka ábendingar Ríkisendurskoðunar til velferðarráðuneytis og Tryggingastofnunar frá árinu 2013 um eftirlit með bótagreiðslum.

Eins og fram kemur í nýrri eftirfylginisskýrslu Ríkisendurskoðunar hafa eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar verið auknar og skyldur umsækjenda og greiðsluþega skýrðar með lögum nr. 8/2014. Þá hefur Tryggingastofnun nú lagaheimild til að ljúka bótasvikamálum með stjórnvaldssektum.

Tryggingastofnun hefur eflt eftirlit með bótagreiðslum og þróað árangursmælikvarða og áhættugreiningu. Til að draga úr mistökum við bótagreiðslur hefur Tryggingastofnun lagt áherslu á að veita umsækjendum og greiðsluþegum góðar leiðbeiningar, bæði með auglýsingum og fundarherferðum. Þá getur stofnunin nú lagt 15% álag á ofgreiddar bætur hafi þær verið fengnar með sviksamlegum hætti. Gögn Tryggingastofnunar benda til að slíku úrræði sé sjaldan beitt.

Ríkisendurskoðun fellst á að það gæti reynst Tryggingastofnun bæði  dýrt og erfitt að hefja viðamikla rannsókn á umfangi mögulegra bótasvika og mistaka við bótagreiðslur og óvíst hvort það svari kostnaði. Ríkisendurskoðun hvetur Tryggingastofnun til að þróa áhættugreiningu sína áfram og vinna markvisst að því að koma upp ábendingahnappi á heimasíðu sinni sem samræmist reglum um persónuvernd, en reynslan sýnir að slíkur hnappur fjölgar ábendingum um hugsanleg bótasvik eða mistök.