Bæta þarf áætlun sértekna

Ríkisendurskoðun telur að bæta þurfi áætlun sértekna stofnana í fjárlögum enda séu slíkar tekjur iðulega vanáætlaðar þar. Rekstraráætlanir gefi oft réttari mynd af sértekjum en verulega skorti á að allar slíkar áætlanir séu færðar í bókhaldskerfi ríkisins. Enn fremur þurfi að breyta færslu sértekna vegna innbyrðis viðskipta stofnana svo að bókhaldið gefi skýrari mynd af rekstri A-hluta ríkissjóðs.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um svokallaðar sértekjur ríkisstofnana en það eru tekjur sem þær hafa af sölu á vöru og þjónustu sem seld er á markaðsforsendum. Um er að ræða sértekjur stofnana í svokölluðum A-hluta ríkissjóðs (ráðuneytin og stofnanir sem heyra beint undir þau) og var aðallega litið til tímabilsins 2007‒2011.
Sértekjur yfirleitt vanáætlaðar í fjárlögum
Fram kemur að sértekjur A-hlutastofnana séu yfirleitt vanáætlaðar í fjárlögum. Þannig hafi munur á áætluðum og rauverulegum sértekjum þessara stofnana verið á bilinu 20–40% á tímabilinu 2007–2010. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf fjármála- og efnahagsráðuneytið að beita sér fyrir því að áætlanagerðin verði bætt. Rekstraráætlanir gefi oft réttari mynd af sértekjum en fjárlög en verulega skorti á að þær séu allar færðar í bókhaldskerfi ríkisins.
Meginhlutinn vegna viðskipta milli ríkisaðila 
Þá kemur fram að meginhluti sértekna A-hlutastofnana sé vegna viðskipta milli aðila innan ríkiskerfisins. Þannig hafi t.d. um 11% sértekna árið 2011 myndast hjá stofnun sem nær eingöngu hafði slíkar tekjur af viðskiptum við aðrar stofnanir. Um 15% sértekna þetta ár skýrist af greiðslum stofnana til annarra stofnana vegna sameiginlegs kostnaðar. Útlagður kostnaður og endurgreiðslur vegna innbyrðis viðskipta stofnana eru færð sem gjöld og tekjur í bókhaldi ríkisins. Að mati Ríkisendurskoðunar er með þessu móti verið að „þenja út“ rekstrarreikninga viðkomandi stofnana að ástæðulausu. Ríkisendurskoðun telur að það gæfi skýrari mynd af rekstri A-hlutans að slík viðskipti væru færð gegnum viðskiptareikning og að hver stofnun gjaldfærði aðeins sinn hluta í kostnaðinum.
Erfitt að greina orsakir frávika
Enn fremur er á það bent að eins og málum er nú háttað er ekki hægt að sjá í bókhaldi ríkisins hve stór hluti sértekna er vegna innbyrðis viðskipta milli stofnana. Þá eru sértekjur ekki aðgreindar eftir uppruna í upplýsingakerfi því sem heldur utan um gerð og framkvæmd fjárlaga (fjárlagakerfinu). Af þeim sökum er erfitt að bera saman rauntölur og áætlanir fjárlaga og greina orsakir frávika. Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að bætt verði úr báðum þessum annmörkum.