Bæta þarf eftirlit með framkvæmd skuldbindandi samninga velferðarráðuneytisins

Velferðarráðuneytið og undirstofnanir þess hafa gert allmarga samninga við aðila utan ríkisins um að þeir taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Ríkisendurskoðun telur að bæta þurfi eftirlit með framkvæmd þessara samninga sem og ýmislegt annað sem tengist umsýslu þeirra. Á undanförnum árum hafa einstök ráðuneyti gert samninga við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um að þessir aðilar taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um 37 slíka samninga velferðarráðuneytisins. Bæði er um að ræða samninga sem ráðuneytið hefur sjálft gert sem og þrjár undirstofnanir þess: Sjúkratryggingar Íslands, Barnaverndarstofa og Vinnumálstofnun. Áætlað er að kostnaður við þessa samninga muni nema um 10,8 milljörðum króna á þessu ári.
Eftirlit með framkvæmd samninganna er ýmist í höndum ráðuneytisins, stofnana þess eða aðkeyptra eftirlitsaðila. Í skýrslunni kemur fram að ákvæði um eftirlit séu víða óljós og sömuleiðis verkaskipting milli eftirlitsaðila. Ekki sé heldur ávallt unnið í samræmi við slík ákvæði. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að bæta úr þessum annmörkum og tryggja þannig öflugt eftirlit með framkvæmd samninganna og að ákvæði þeirra haldi gildi sínu.
Bent er á að ekki séu gildir samningar um öll verkefni sem velferðarráðuneytið greiðir fyrir. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að endurnýja útrunna samninga hið fyrsta. Þá þarf ráðuneytið að ljúka gerð verklagsreglna um gerð og umsýslu skuldbindandi samninga og bæta yfirsýn um slíka samninga.
Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að í samningum komi skýrt fram að hverju sé stefnt og hvernig eigi að meta árangur. Ákvæði um slík atriði eru víða í samningum sem velferðarráðuneytið og undirstofnanir þess hafa gert en þau þarf að samræma og tryggja þarf eftirfylgni með þeim. Enn fremur telur stofnunin að tengja eigi greiðslur við árangur eða frammistöðu verksala. Loks þarf að móta reglur um úttekir á framkvæmd samninga og endurskoðun þeirra á samningstíma og fylgja þeim eftir.
Ríkisendurskoðun ákvað fyrr á þessu ári að kanna framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni ráðuneyta með samningum sem þau hafa gert við aðila utan ríkisins og skilgreindir eru sem „skuldbindandi samningar“ í fjárlögum. Birt verður sérstök skýrsla fyrir hvert ráðuneyti og er skýrslan um skuldbindandi samninga velferðarráðuneytisins önnur í röðinni en áður er komin út skýrsla um samninga iðnaðarráðuneytisins.