Bæta þarf málsmeðferð TR og tryggja réttar greiðslur

Tryggingastofnun og almannatryggingar

Ríkisendurskoðun telur að bæta þurfi málsmeðferð við töku ákvarðana hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Auka þarf hlutfall viðskiptavina TR sem fá réttar greiðslur. Stofnunin þarf að sinna betur leiðbeiningarskyldu sinni og efla upplýsingagjöf. Endurskoða þarf núgildandi fyrirkomulag um að rekin séu umboð fyrir TR hjá sýslumannsembættum landsins. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að heildarendurskoðun laga um almannatryggingar ljúki sem fyrst. Vinna við hana hefur staðið yfir frá árinu 2005. Lagaumgjörðin er flókin og ógagnsæ.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, Tryggingastofnun ríkisins og staða almannatrygginga, sem unnin var að beiðni Alþingis. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar kynntu skýrsluna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrr í dag og hefur hún nú verið birt á vef embættisins.