Bæta þarf skráningu og utanumhald samninga

Ríkisendurskoðun telur að bæta þurfi skráningu og utanumhald samninga sem ráðuneyti og stofnanir gera við aðila utan ríkisins. Yfirlit um slíka samninga sem birt er í fjárlagafrumvarpi ár hvert sé ófullkomið. Samræma þurfi upplýsingar betur milli ráðuneyta og tryggja að yfirlitið sé tæmandi. Þá þurfi að endurskoða þær reglur sem gilda um samningana og efla eftirlit með framkvæmd þeirra.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um rekstrar-, þjón­ustu-, samstarfs- og styrktar­samn­­inga sem ráðuneyti og stofnanir hafa gert við aðila utan ríkisins. Um er að ræða samninga sem gilda til eins árs eða lengur og hljóða hver um sig upp á greiðslur sem nema þremur milljónum króna eða meira á ári. Tæplega 500 slíkir samn­­ing­ar voru virkir árið 2014, þ.e. starfað var samkvæmt þeim. Áætl­að­ur kostnaður þeirra nam samtals um 61 milljarði króna. Þar af tilheyrði 161 samningur vel­ferð­ar­ráðu­­neyti, 127 mennta- og menning­ar­mála­ráðu­neyti, 52 utan­ríkis­­­ráðu­neyti og 40 atvinnuvega- og nýsköp­un­ar­ráðu­neyti. Samn­ing­­ar annarra ráðuneyta voru á bilinu 16‒34. Af þessum 500 samningum voru 36 útrunnir árið 2014 en engu að síður var starfað samkvæmt þeim. Áætlaður kostnaður þeirra nam um 5,5 milljörðum króna.
Samkvæmt reglugerð eiga ráðuneytin að halda skrá um gerða samninga þar sem fram komi árlegur kostnaður þeirra á samn­ings­tíma. Á hverju ári er í fjárlagafrumvarpi birt yfirlit um skuld­bind­andi samn­­inga ráðuneytanna. Í skýrslunni kemur fram að upp­lýsing­ar um samninga eru ekki skráðar með sam­ræmd­um hætti í þessu yfirliti, auk þess sem þar er ekki getið um fjölmarga samninga. Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneyti til að vinna með öðrum ráðuneytum að því að bæta úr þessu.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur gefið út reglur og leið­bein­ing­ar um hvernig standa skuli að undirbúningi, gerð og eftir­­liti með samningum sem ráðuneyti og stofnanir gera við aðila utan ríkisins. Í skýrslunni kemur fram að mikill mis­­­brest­ur er á að eftir þeim sé farið. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að taka regluverkið til endurskoðunar. Skilgreina þarf þær kröfur sem gera skal til slíkra samninga og tryggja að þeim sé fylgt.
Fram kemur að Ríkisendurskoðun hefur í samstarfi við fjár­mála- og efnahags­ráðu­neyti og Fjársýslu ríkisins hafið viðræður við fyrirtækið Advania, sem þjónustar fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins (Orra), um að virkja miðlægan gagnagrunn um samninga í kerfinu. Ríkisendurskoðun bindur vonir við að samvinnan verði til að bæta þekk­ingu á og yfirsýn um samninga ríkisins og efla eftirlit með fram­kvæmd þeirra.