Bæta þarf verklag við flutning ríkisstarfsemi

Með mjög ólíkum hætti var staðið að ákvarðanatöku, undirbúningi og framkvæmd flutninga fimm ríkisstofnana á milli landshluta á árunum 1999-2007.

Ríkisendurskoðun kannaði flutning þessara fimm stofnana til að meta hvaða þættir hafa haft ráðandi áhrif á árangur slíkra breytinga. Einnig var litið til flutnings höfuðstöðva Fiskistofu sem enn stendur yfir. Rækilegur undirbúningur, áætlanagerð, samráð og markviss eftirfylgni er nauðsynleg til að flutningur ríkisstofnana á milli landshluta heppnist vel.

Ríkisendurskoðun telur að stofnun Landbúnaðarstofnunar (síðar Matvælastofnunar) á Selfossi og Innheimtumiðstöðvar sekta og sakakostnaðar á Blönduósi séu dæmi um vel heppnaðar breytingar. Í báðum tilfellum var vel staðið að undirbúningi og áætlanagerð og gerð skýr krafa um aukna skilvirkni og hagkvæmi í ríkisrekstri.

Mjög hefur reynt á starfsmannahald við flutning þeirra stofnana eða verkefna sem skoðuð voru og leiddu flutningarnir til mikillar endurnýjunar á starfsfólki. Flutningar geta haft þau áhrif að mikilvæg reynsla og þekking fari forgörðum og tími og kostnaður fari í að þjálfa upp nýtt starfsfólk. Þá verður ekki að séð að flutningar leiði almennt til sparnaðar í rekstri. Í mörgum tilfellum hefur ferðakostnaður aukist vegna aukins ferðatíma starfsmanna og samskipta við ráðuneyti og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur kostnaður við flutninga oftast verið vanmetinn.

Ríkisendurskoðun beinir því til forsætisráðuneytisins að leiða innleiðingu á samræmdu verklagi innan Stjórnarráðs Íslands vegna undirbúnings og framkvæmda ákvarðana um flutning ríkisstarfsemi milli landshluta. Þá hvetur Ríkisendurskoðun fjármála- og efnahagsráðuneyti til að setja skýrar leiðbeiningar fyrir stjórnendur stofnana um flutning ríkisstarfsemi og almenn viðmið um breytingar á aðsetri stofnana. Einnig er fjármála- og efnahagsráðuneyti hvatt til að efla eftirlit og eftirfylgni þegar ríkisstarfsemi er flutt milli landshluta til að meta ávinning af breytingunum.