Bæta þarf vinnuferla og bókanir vegna innkaupa ríkisstofnana

Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að bæta vinnuferla og bókanir vegna innkaupa ríkisstofnana þannig að marktækar upplýsingar fáist um innkaup þeirra samkvæmt rammasamningum. Ríkiskaup gera svokallaða rammasamninga um kaup stofnana og fyrirtækja ríkisins á vörum og þjónustu. Markmkiðið er að ná fram bestu kjörum fyrir ríkið. Almennt ber stofnunum og fyrirtækjum sem rekin eru að helmingi eða meira fyrir almannafé að nýta rammasamninga við innkaup.

Árið 2011 vakti Ríkisendurskoðun athygli á því að bókhald ríkisins veitti engar upplýsingar um hvort eða að hve miklu leyti stofnanir notuðu rammasamninga við innkaup sín. Við mat sitt á veltu samninganna styddust Ríkiskaup alfarið við skilagreinar söluaðila. Vegna þessa beindi Ríkisendurskoðun tveimur ábendingum til fjármálaráðuneytisins (nú fjármála- og efnahagsráðuneyti). Annars vegar taldi stofnunin óviðunandi að stjórnvöld væru alfarið háð upplýsingum frá söluaðilum við mat á veltu rammasamninga og árangri þeirra og sparnaði fyrir ríkið. Hins vegar taldi stofnunin mikilvægt að fjármálaráðuneytið bætti verkferla og bókanir vegna innkaupa þannig að marktækar upplýsingar um framkvæmd rammasamninga yrðu aðgengilegar.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að á undanförnum misserum hefur vinnuhópur á vegum ráðuneytisins unnið að stefnumótun og gerð framkvæmdaáætlunar um rafræn innkaup. Þeim hópi hafi m.a. verið falið að meta hvaða lausn sé best til þess fallin að halda utan um upplýsingar um notkun rammasamninga. Ríkisendurskoðun fagnar þessu starfi en telur að það gangi fullhægt og ítrekar því ábendingar sínar frá 2011.