Bætt innheimta opinberra gjalda

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingar sínar til fjármála- og efnahagsráðuneytis frá 2014 um innheimtu opinberra gjalda í nýrri eftirfylgniskýrslu sinni. 

Ráðuneytið er þó hvatt til að vinna áfram að aukinni samnýtingu uppgjörsupplýsinga milli skattayfirvalda og ársreikningaskrár í samstarfi við Ríkisskattstjóra.

Frá 2014 hefur verið unnið að úrbótum þeirra veikleika sem Ríkisendurskoðun benti á.  Með breytingum á lögum nr. 3/2006 um ársreikninga geta örfélög valið um að lykiltölur úr skattframtali séu sendar sjálfvirkt til ársreikningaskrár sem fullgildur ársreikningur. Ríkisskattstjóri hefur umsjón með tæknilegri útfærslu og innleiðingu þessara breytinga sem gert er ráð fyrir að ljúki í júní 2017. Heimildir í lögum nr. 112/2016 um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum veita innheimtumönnum aðgang að skattframtölum skuldara þegar um er að ræða aðför vegna vanskila opinberra gjalda. Þá ber að geta þess að í fjárlögum 2017 eru skilgreind skýr markmið um að bæta framleiðni í skattkerfinu, tryggja betri skattskil og gera innheimtukerfið einfaldara og hagkvæmara.