Biðst undan því að vinna úttekt á forsendum Vaðlaheiðarganga

Ríkisendurskoðun hefur ritað forseta Alþingis bréf þar sem stofnunin biðst undan því að gera úttekt á áætluðum kostnaði, forsendum og fleiri þáttum sem tengjast fyrirhuguðum Vaðlaheiðargöngum. Forsætisnefnd þingsins fór með bréfi dagsettu 14. nóvember sl. fram á að stofnunin ynni slíka úttekt.Bréf forsætisnefndar til Ríkisendurskoðunar var ritað að beiðni umhverfis- og samgöngunefndar þingsins. Í bréfi hennar til forsætisnefndar er óskað eftir því að Ríkisendurskoðun verði falið að gera „heildarúttekt á áætluðum kostnaði og þeim tekjuforsendum og öðrum forsendum sem liggja þar að baki við gerð Vaðlaheiðarganga.“ Jafnframt var þess farið á leit að gerð yrði „heildarúttekt miðað við breytingar á forsendum (næmnigreining) og á getu Vaðlaheiðarganga hf. til greiðslu afborgana og vaxta af lánsfjármögnun án aðkomu ríkissjóðs.“ Þá skyldi meta tilkostnað ríkissjóðs „við aðkomu að fjármögnun framkvæmdarinnar ef einhver er.“
Fram kemur í bréfi Ríkisendurskoðunar að verkefni stofnunarinnar séu lögbundin en ekki verði séð að löggjafinn hafi ætlað henni að leysa úr eða svara álitaefnum á borð við þau sem nefnd séu í bréfi umhverfis- og samgöngunefndar. Þá bendir stofnunin á að ríkisendurskoðandi tengist einum stjórnarmanna Vaðlaheiðarganga hf. fjölskylduböndum og væri því, ef á reyndi, vanhæfur til að sinna þessu verkefni með vísan til siðareglna stofnunarinnar og óskráðrar hæfisreglu stjórnsýsluréttarins.