Brýnt að taka á erfiðri fjárhagsstöðu Hólaskóla

Háskólinn á Hólum glímir við mikinn uppsafnaðan halla og skuldir. Að mati Ríkisendurskoðunar er staðan mikið áhyggjuefni. Yfirvöld menntamála og forráðamenn skólans þurfa að taka á þessum vanda sem fyrst. Jafnframt þurfa yfirvöld að ákveða framtíðarstöðu skólans.Uppfært 15:07
Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem vakin var athygli á erfiðri fjárhagsstöðu Háskólans á Hólum (Hólaskóla). Skólinn glímdi við mikinn uppsafnaðan halla og háar skuldir, einkum við ríkissjóð. Að mati Ríkisendurskoðunar vakti þetta spurningar um hagkvæmni Hólaskóla sem rekstrareiningar og getu hans til að standa fjárhagslega undir þeim faglegu kröfum sem gerðar eru til háskóla.
Í skýrslu sinni árið 2011 beindi Ríkisendurskoðun samtals tíu ábendingum til skólans og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ráðuneytið var m.a. hvatt til að ákveða framtíðarstöðu Hólaskóla, tryggja að rekstur hans rúmaðist innan fjárheimilda og finna varanlega lausn á skuldum skólans við ríkissjóð. Stjórnendum skólans var m.a. bent á að þeir yrðu að temja sér aga og fagleg vinnubrögð við fjármálastjórn til að tryggja að rekstur skólans væri innan fjárheimilda. Þá benti Ríkisendurskoðun m.a. á að líkur væru á því að útistandandi viðskiptakröfur skólans væru ofmetnar og því kynni fjárhagsstaða hans að vera verri en ársreikningar segðu til um.
Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að fjárhagsstaða Hólaskóla hefur versnað frá árinu 2010. Í árslok 2013 nam uppsafnaður halli skólans 157 milljónum króna sem samsvaraði um 52% af fjárveitingu ársins. Heildarskuldir skólans námu 245 milljónum króna, þar af nam skuld við ríkissjóð 233 milljónum króna. Útlit er fyrir að uppsafnaður halli muni nema 178 milljónum króna í árslok 2014. Að mati Ríkisendurskoðunar er fjárhagsstaða Hólaskóla mikið áhyggjuefni og brýnt að ráðuneytið og forráðamenn skólans taki á vandanum sem fyrst.

Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið og skólinn hafi ekki brugðist sem skyldi við níu af tíu ábendingum skýrslunnar frá 2011. Stofnunin ítrekar nú þessar níu ábendingar.

Ráðuneytið er hvatt til að:

  • Ákveða hvort Hólaskóli starfi áfram sem sjálfstæður opinber háskóli, sameinist öðrum skóla eða verði sjálfseignarstofnun á forræði þeirra atvinnugreina sem nám skólans lýtur að
  • Tryggja að rekstur skólans rúmist innan fjárheimilda. Í þessu sambandi er bent á að samkvæmt reglugerð verða stofnanir með uppsafnaðan halla umfram 4% að hagræða þannig að hallinn sé greiddur upp á árinu
  • Finna varanlega lausn á skuld skólans við ríkissjóð
  • Fylgja því eftir að skólinn komi viðskiptakröfum sínum í það horf að bókfært virði þeirra gefi rétta mynd af raunverulegri stöðu
  • Sjá til þess að tekið verði tillit til uppsafnaðs halla í rekstraráætlun skólans
  • Sjá til þess að skólahald verði aðgreint frá staðarhaldi á Hólum

Stjórnendur Hólaskóla eru hvattir til að:

  • Temja sér aga og fagleg vinnubrögð við fjármálastjórn skólans til að tryggja að rekstur hans sé innan fjárheimilda. Í þessu sambandi er bent á að samkvæmt reglugerð verða stofnanir með uppsafnaðan halla umfram 4% að hagræða þannig að hallinn sé greiddur upp á árinu
  • Tryggja að viðskiptakröfur séu rétt metnar í bókhaldi skólans
  • Nýta rekstraráætlun hvers árs sem stjórntæki til að halda rekstri innan fjárheimilda

Auk framangreindra ábendinga hvatti Ríkisendurskoðun ráðuneytið árið 2011 til að gera samning við Hólaskóla um kennslu og rannsóknir. Slíkur samningur var gerður árið 2012 og er ábendingin því ekki ítrekuð.