Dvalarheimilið Höfði, Akranesi. Rekstur og fjárhagsstaða árin 2000-2002

By 16.02.2004 2004 No Comments

Fjárhags- og stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi leiðir í ljós að stofnunin sker sig ekki sérstaklega frá öðrum öldrunarheimilum þegar horft er til afkomu. Yfirleitt er halli á rekstri þeirra. Frá árinu 2000 hefur kostnaður Höfða þó hækkað meira en annarra sambærilegra heimila, einkum vegna launahækkana.
Í þessari skýrslu er leitað skýringa á tæplega 70 m.kr. uppsöfnuðum halla á rekstri Höfða á árunum 2000-2002 sem jafnaður var með aukafjárveitingu í fjáraukalögum. Annars vegar er horft til almennrar rekstrarafkomu þeirra 48 öldrunarstofnana sem fá fjárveitingar frá hinu opinbera og hins vegar leitast við að greina sérstaklega aðstæður Dvalarheimilisins Höfða og bera rekstur þess saman við aðrar sambærilegar öldrunarstofnanir.

Í skýrslunni kemur fram að langflestar öldrunarstofnanir í landinu voru reknar með halla á árunum 2000-2002. Að þessu leyti greinir Höfði sig ekki frá öðrum stofnunum. Ríki og sveitarfélög hafa ekki lagt sama skilning í það hvernig skuli fjármagna þessa þjónustu og telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að ljóst liggi fyrir hver beri fjárhagslega ábyrgð þegar halli verður á starfseminni.

Þegar rekstur Dvalarheimilisins Höfða á árunum 2000-2002 er skoðaður sérstaklega kemur í ljós að kostnaður við hvern legudag á hjúkrunardeild var þar hærri en að meðaltali á öðrum sambærilegum hjúkrunar- og dvalarheimilum. Einkum var launakostnaður hærri á Höfða en á hinum heimilunum. Þetta á sér tvær skýringar. Annars vegar var hlutfall sjúkraliða tiltölulega hátt á Höfða en ófaglært starfsfólk færra en á hinum heimilunum. Hins vegar hækkaði launakostnaður Höfða meira en hinna heimilanna á tímabilinu.

Höfði er einnig með hærri kostnað á hvern legudag dvalarrýma en önnur sambærileg heimili. Þá er mötuneytiskostnaður vegna dvalardeildar Höfða hærri en hinna heimilanna. Sama gildir um kostnað vegna lyfja- og hjúkrunarvara sem færður er á dvalarrými. Að lokum sýnist kostnaður við dagvist Höfða vera nokkuð hár.

Rétt er að taka fram að samanburður á einingakostnaði er nokkrum vandkvæðum bundinn vegna þess að öldrunarheimilin nota mismunandi aðferðir við að skipta kostnaði á milli þjónustueininga. Nauðsynlegt er að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mæli fyrir um samræmda kostnaðarskiptingu í þeim uppgjörum sem ráðuneytið kallar eftir um rekstur slíkra heimila.