Efla þarf úrræði stjórnvalda til að innheimta sektir

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að hér á landi eru háar sektir yfirleitt ekki greiddar heldur gerðar upp með samfélagsþjónustu. Kanna þurfi hvort þetta fyrirkomulag sé skynsamlegt út frá því markmiði refsinga að fæla menn frá afbrotum. Stofnunin telur einnig að efla þurfi úrræði stjórnvalda til að innheimta sektir.Í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar‘‘ kemur fram að samkvæmt lögum eru refsingar hér á landi tvenns konar: sektir og fangelsisvist. Geti maður sem dæmdur er til sektar ekki greitt hana þurfi hann að taka út svokallaða vararefsingu í formi fangelsisvistar. Að vissum skilyrðum uppfylltum geti þó svonefnd samfélagsþjónusta komið í stað vararefsingar en hún getur t.d. falist í ýmsum líknar- eða umönnunarstörfum.
Stór hluti sekta sem námu 8. m.kr. eða hærri fjárhæð á árunum 2000–2006 var gerður upp með samfélagsþjónustu. Í öllum tilvikum var um að ræða brot á skattalögum. Að mati Ríkisendurskoðunar þýðir þetta að viðurlög samkvæmt dómum voru í reynd milduð eftir á. Eitt meginmarkmið refsinga er að fæla menn frá því að brjóta lög. Ríkisendurskoðun telur að kanna þurfi hvort skynsamlegt sé með hliðsjón af þessu markmiði að unnt sé að gera upp sektir fyrir „hvítflibbabrot‘‘ með samfélagsþjónustu.
Lagt er til að þær stofnanir sem innheimta sektir fái öflugri úrræði til að stuðla að því að þær séu greiddar. Meðal annars verði kannað hvort unnt sé að heimila þeim að draga sektir frá launum, eins og tíðkast á sumum hinna Norðurlandanna, og kyrrsetja eignir manna sem háar sektir vofa yfir. Einnig þurfi að bæta aðgang umræddra stofnana að upplýsingum um fjárhagsstöðu sektarþola. Tekið er fram í skýrslunni að mjög hafi verið til bóta að fela einni stofnun, Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar (IMST), að innheimta allar sektir. Stofnunin sinni hlutverki sínu vel og hið sama megi segja um Fangelsismálastofnun sem sér um framkvæmd samfélagsþjónustu.
Ýmsar fleiri tillögur er að finna í skýrslunni, þ.á.m. um að gerð verði fagleg úttekt á kostum þess og göllum að dómstólar dæmi menn til samfélagsþjónustu líkt og tíðkast í nágrannalöndunum. Þá þurfi að fjölga verulega fangelsisrýmum til þess að unnt sé að láta sektarþola afplána vararefsingar með fangelsisvist.