Eftirfylgni með ábendingum um kaup Fasteigna ríkissjóðs á málningarvinnu

Fasteignir ríkissjóðs hafa brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingu Ríkisendurskoðunar frá 2010 um að gera þyrfti verðsamanburð við kaup á málningarvinnu á Norðausturlandi. Þá hafa Ríkiskaup brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingu stofnunarinnar um að gera þyrfti rammasamning um kaup á verktakaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.Í ágúst 2010 beindi Ríkisendurskoðun ábendingu til Fasteigna ríkissjóðs vegna kaupa þeirra á málningarvinnu á Norðausturlandi á árunum 2007–09. Í ljós hafði komið að einn verktaki sá um nær alla slíka vinnu fyrir stofnunina á tímabilinu. Um var að ræða nokkur verk sem öll voru undir viðmiðunarfjárhæð útboðsskyldu. Ekki var þess þó ávallt gætt að leita eftir verðhugmyndum eða tilboðum í verk frá öðrum fyrirtækjum eins og lög um opinber innkaup kveða á um. Samkvæmt þeim skal kaupandi ávallt gera verðsamanburð meðal sem flestra fyrirtækja ef viðskipti eru undir viðmiðunarmörkum útboðsskyldu.

Ríkisendurskoðun hvatti Fasteignir ríkissjóðs til að endurskoða verklag sitt við innkaup með það fyrir augum að gæta betur jafnræðis milli fyrirtækja. Jafnframt beindi stofnunin þeirri ábendingu til Ríkiskaupa að gera þyrfti rammasamning við verktaka í iðnaði utan höfuðborgarsvæðisins. Rammasamningar eru gerðir í kjölfar útboða og teljast ígildi þeirra og fela í sér að fyrirtæki sem selja vöru eða þjónustu veita ríkisstofnunum sérstök afsláttarkjör.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þegar þrjú ár eru liðin frá því að fyrrnefndar ábendingar voru settar fram hafa stofnanirnar tvær brugðist með fullnægjandi hætti við þeim. Staðfest er að Fasteignir ríkissjóðs kaupa nú þjónustu af fleiri verktökum en áður. Þá hafa Ríkiskaup gert sérstakan rammasamning um þjónustu iðnaðarmanna á landsvísu. Raunar er í skýrslunni bent á að aðild iðnaðarmanna utan höfuðborgarsvæðisins að þessum samningi sé takmörkuð og telur Ríkisendurskoðun mikilvægt sé að brugðist verði við því, t.d. með því að stuðla að því að útboðsgögn séu ekki óþarflega flókin eða íþyngjandi fyrir lítil fyrirtæki. En stofnunin lítur svo á að aðkomu hennar að umræddum þáttum í starfsemi Fasteigna ríkissjóðs og Ríkiskaupa sé lokið.