Eftirlit með starfsemi og árangri Vinnueftirlits ríkisins ásættanlegt

Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemdir við þær aðferðir sem velferðarráðuneyti notar til að stuðla að árangursmiðaðri stjórn og starfsemi Vinnueftirlits ríkisins og ítrekar ekki ábendingar sínar til ráðuneytisins.

Árið 2013 hvatti Ríkisendurskoðun velferðarráðuneyti til að gera nýjan árangursstjórnunarsamning við Vinnueftirlit ríkisins sem tæki mið af starfsemi stofnunarinnar. Árangurs­stjórnun­ar­samn­ingur frá árinu 1998 hafði þá aldrei verið virkjaður. Einnig taldi Ríkisendurskoðun rétt að lagt yrði mat á ávinning þess að flytja eftirlit og umsjón með skráningu vinnuvéla frá Vinnueftirlitinu til Samgöngu­stofu.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að enn er enginn árangursstjórnunarsamningur í gildi milli velferðarráðuneytis og Vinnueftirlits ríkisins. Ráðuneytið kveðst þó hafa náið eftirlit með starfsemi og árangri stofnunarinnar sem auk þess notfæri sér CAF sjálfsmatslíkanið (Common Assessment Framework) til að meta árangur. Ríkisendurskoðun bendir á að slíkt sjálfsmat komi ekki í staðinn fyrir árangursstjórnunarsamning en gerir þó ekki athugasemdir við aðferð ráðu­neytisins við árangursstjórnun. Í skýrslunni kemur einnig fram að félags- og húsnæðis­málaráðherra hefur óskað eftir tilnefningu í nefnd sem gera á tillögu um vinnuverndarstefnu. Nefndin mun m.a. fjalla um hvernig eftirliti og skráningu vinnuvéla skuli háttað og er áætlað að hún ljúki störfum fyrir árslok 2016. Af þessum sökum ítrekar Ríkisendurskoðun ekki ábendingar sínar.