Einfalda þarf málsmeðferð við uppsögn ríkisstarfsmanna

Ríkisendurskoðun telur að áminning samkvæmt starfsmannalögum sé að ýmsu leyti gallað úrræði. Einfalda þurfi reglur um málsmeðferð við uppsögn ríkisstarfsmanna. Þá telur stofnunin brýnt að forstöðumenn meti frammistöðu starfsmanna með faglegum hætti.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um þær reglur sem gilda um starfslok ríkisstarfsmanna hér á landi. Flestir ríkisstarfsmenn njóta lögbundinnar verndar í starfi umfram launþega á almennum vinnumarkaði. Þessi vernd birtist m.a. í því að ef ríkisstarfsmaður brýtur af sér í starfi eða árangur hans er talinn ófullnægjandi verður yfirmaður að veita honum skriflega áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt. Ekki má segja starfsmanninum upp nema hann brjóti aftur af sér með sama eða svipuðum hætti. Geri hann það má þó ekki líða of langur tími milli brotanna því þá telst fyrra brotið fyrnt og áminna þarf að nýju og gefa starfsmanninum aftur kost á að bæta sig.
Reglur um áminningu og uppsögn ríkisstarfsmanna er að finna í lögum um réttindi og skyldur þeirra (starfsmannalögum). Við beitingu þessara úrræða verður forstöðumaður jafnframt að virða ákvæði stjórnsýslulaga. Þannig má t.d. ekki segja ríkisstarfsmanni upp nema full ástæða sé til (meðalhófsregla) og uppsögn verður að vera studd málefnalegum rökum, svo dæmi séu nefnd.
Deilt er um það hvort eðlilegt sé að ríkisstarfsmenn búi við meira starfsöryggi en launþegar á almennum vinnumarkaði. Því hefur m.a. verið haldið fram að lagaákvæði sem vernda ríkisstarfsmenn geti komið niður á skilvirkni og árangri opinbers rekstrar og að nauðsynlegt sé að auka sveigjanleika í starfsmannamálum ríkisins.
Miðað við fjölda ríkisstarfsmanna er áminningu mjög sjaldan beitt. Í skýrslunni kemur fram að ástæðan sé m.a. sú að ferlið sem lögin mæla fyrir um sé flókið og tímafrekt. Könnun Ríkisendurskoðunar meðal forstöðumanna leiddi í ljós að margir þeirra veigra sér við því að beita áminningu og nota fremur önnur og óformlegri úrræði ef þeir telja sig þurfa að segja upp starfsmanni. Einnig ríkir neikvætt viðhorf í samfélaginu til áminningar en hún er talin jafngilda ærumissi fyrir þann sem fyrir henni verður. Þá er að mati stofnunarinnar ekki ávallt við hæfi að beita áminningu þótt skilyrði fyrir beitingu hennar virðist vera fyrir hendi, t.d. getur ástæða þess að starfsmaður nær ekki fullnægjandi árangri verið sú að hann skorti líkamlegt eða andlegt atgervi. Úrræðið er því að ýmsu leyti gallað að mati Ríkisendurskoðunar og nýtist ekki eins og upphaflega var ætlað.
Í skýrslunni er lagt til að málsmeðferð við uppsögn ríkisstarfsmanna verði einfölduð og ákvæði starfsmannalaga um áminningu endurskoðuð. Bent er á að þótt áminningarskyldan yrði felld brott myndu stjórnsýslulög eftir sem áður tryggja að uppsögn byggðist á málefnalegum sjónarmiðum. Að mati Ríkisendurskoðunar veita lögin ríkisstarfsmönnum fullnægjandi réttarvernd.
Innan við helmingur forstöðumanna ríkisstofnana metur frammistöðu starfsmanna með skipulegum og reglubundnum hætti, samkvæmt könnun Ríkisendurskoðunar. Stofnunin telur brýnt að úr þessu verði bætt. Þá telur stofnunin að veita eigi forstöðumönnum lagaheimild til að gera samning við starfsmann um að hann haldi launum og kjörum í uppsagnarfresti þótt ekkert vinnuframlag komi þar á móti. Enn fremur þurfi fjármálaráðuneytið að aðstoða forstöðumenn betur í starfsmannamálum en hingað til. Sérstaklega eigi þetta við um minni stofnanir þar sem forstöðumenn hafi yfirleitt verið ráðnir á grundvelli fagþekkingar sinnar fremur en þekkingar á starfsmannamálum.
Þess má geta að skýrslan er sú fyrsta í röðinni af nokkrum sem Ríkisendurskoðun vinnur að og fjalla um mannauðsmál ríkisins.