Ekki frekari afskipti af máli yfirlæknis hjá HSA

By 29.10.2009 2009 No Comments

Ríkisendurskoðun mun að svo stöddu ekki aðhafast frekar í máli yfirlæknis hjá HSA en hvetur heilbrigðisráðuneytið til að huga að viðeigandi úrræðum.Síðastliðið vor ákvað Ríkisendurskoðun að gera úttekt á greiðslum Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) til yfirlæknis hjá stofnuninni vegna gruns um að hann hefði gerst sekur um fjárdrátt með rangri reikningagerð. Áður höfðu lögregla og ríkissaksóknari fjallað um þessar grunsemdir en ákveðið að fella niður rannsókn. Úttektin gaf ótvírætt til kynna að yfirlækninum hafi verið eða mátt vera ljóst að hann ofkrafði HSA um þóknun fyrir vinnu sína í a.m.k. 26 tilvikum á tveimur u.þ.b. mánaðarlöngum tímabilum á árunum 2007 til 2009.

Í kjölfarið óskaði Ríkisendurskoðun eftir því að ríkissaksóknari rannsakaði málið að nýju. Hann vísaði því til lögreglustjórans á Eskifirði sem síðar ákvað að fella það niður þar sem erfitt væri að sanna ásetning í meginþorra rannsóknartilvika. Var þó viðurkennt að færslum hins kærða á sjúkraskrá hefði verið ábótavant og reikningagerð hans hefði vakið grunsemdir um misferli. Ríkisendurskoðun sendi þá ríkissaksóknara fyrirspurn um hvort hann hygðist aðhafast frekar í málinu en svörin gáfu til kynna að ekki væri við því að búast nema honum bærist formleg kæra.

Í bréfi sem Ríkisendurskoðun sendi nýlega til heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að stofnunin mun ekki hafa frekari afskipti af málinu að svo stöddu. Hins vegar er þar minnt á að forstöðumenn heilbrigðisstofnana og heilbrigðisyfirvöld eiga að fylgja því eftir að heilbrigðisstarfsmenn virði starfsskyldur sínar. Jafnframt hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að huga að þeim úrræðum sem viðeigandi sé að beita í þessu máli.