Ekki þörf á að ítreka ábendingar um innra eftirlit hjá aðalskrifstofum ráðuneytanna

Ríkisendurskoðun telur ekki þörf á að ítreka ábendingar sínar frá árinu 2011 um innra eftirlit hjá aðalskrifstofum ráðuneytanna. Stofnunin væntir þess þó að fjármála- og efnahagsráðuneytið setji á næstunni skýrar reglur um stjórnsýslukostnað ráðuneyta og gjaldfærslur á safnliði.Á árunum 2006‒09 kannaði Ríkisendurskoðun tiltekna þætti innra eftirlits hjá aðalskrifstofum ráðuneyta og skilaði samtals ellefu skýrslum um málið. Árið 2011 fylgdi stofnunin skýrslunum eftir og áréttaði þá sjö ábendingar sem ekki hafði verið brugðist við. Þær beindust að fimm ráðuneytum (sem nú eru fjögur) og lutu m.a. að nauðsyn þess að settar yrðu skýrar reglur um styrkveitingar og þjónustusamninga og að bæta þyrfti aðferðir til að meta framgang áætlana og áhrif styrkveitinga. Að auki beindi stofnunin einni nýrri ábendingu til fjármálaráðuneytis (nú fjármála- og efnahagsráðuneyti). Hún laut að þörf á samræmdum og skýrum reglum um hvað teldist til stjórnsýslukostnaðar hjá ráðuneytunum og hvar hann skyldi gjaldfærður. Ástæðan var sú að ráðuneytin höfðu gjaldfært ýmsan kostnað sem Ríkisendurskoðun taldi hreinan stjórnsýslukostnað á safnliði en ekki á aðalskrifstofurnar þótt kostnaðurinn tengdist fastráðnum starfsmönnum ráðuneytanna og lögboðnum verkefnum þeirra.

Nú þremur árum síðar hafa ráðuneytin almennt brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar með þeim hætti að ekki er þörf á að ítreka þær. Meginfrávikið felst í því að fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur enn hvorki sett verklagsreglur um stjórnsýslukostnað og gjaldfærslur á safnliði né skilgreint hugtakið stjórnsýslukostnaður. Ríkisendurskoðun væntir þess þó að það standi við áform sín um að starfshópur á þess vegum ljúki þessum verkum fyrir árslok 2014. Stofnunin telur því ekki rétt að ítreka ábendingar sínar sem lúta að þessum málum að svo stöddu en mun fylgja þeim eftir við næstu endurskoðun aðalskrifstofa ráðuneytanna.