Ekki þörf á að ítreka ábendingar vegna Sjúkrahússins á Akureyri

Ríkisendurskoðun telur ekki þörf á að ítreka ábendingar sínar frá árinu 2011 um skipulag, stefnumótun og stjórnun Sjúkarhússins á Akureyri.Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um málefni Sjúkrahússins á Akureyri þar sem samtals níu ábendingum var beint til sjúkrahússins, velferðarráðuneytisins og Embættis landlæknis. Ábendingarnar vörðuðu einkum skipulag, stefnumótun og stjórnun sjúkrahússins. Ráðuneytið var hvatt til að ákveða framtíðarskipulag heilbrigðismála á Norðurlandi og tryggja að framkvæmdastjórn sjúkrahússins sinnti starfi sínu vel. Þá var ráðuneytinu bent á að endurskoða þyrfti fyrirkomulag svokallaðra ferliverka á sjúkrahúsinu. Sjúkarhúsið var hvatt til að móta sér nýja stefnu og framtíðarsýn með áherslu á faglega framþróun  klínískrar starfsemi, endurskipuleggja starfsemina og efla framkvæmdastjórn. Enn fremur var sjúkrahúsinu bent á að endurskoða umsýslu tölvumála sinna og fyrirkomulag ferliverka. Embætti landlæknis var hvatt til að gera úttekt á því hvort mönnun deilda uppfyllti faglegar öryggiskröfur en Ríkisendurskoðun taldi að viðvarandi læknaskortur kynni hugsanlega að ógna öryggi sjúklinga.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hafa framangreindir aðilar brugðist þannig við ábendingunum ekki er talin þörf á að ítreka þær. Ríkisendurskoðun hefur þar með lokið að sinni afskiptum af þeim málefnum Sjúkarhússins á Akureyri sem fjallað var um í skýrslunni frá 2011.