Ekki tilefni til úttektar á Rannsóknasjóði

Ríkisendurskoðun telur ekki tilefni til að gera stjórnsýsluúttekt á Rannsóknasjóði. Engu að síður telur stofnunin að breyta þurfi samsetningu fagráða sjóðsins til að tryggja betur en nú óhlutdrægni við úthlutun styrkja úr sjóðnum.Rannsóknasjóður veitir styrki til vísindarannsókna hér á landi en Rannsóknamiðstöð Íslands (RANNÍS) annast daglega umsýslu hans. Árið 2010 námu opinber framlög til sjóðsins samtals 815 milljónum króna. Sjóðurinn er svokallaður samkeppnissjóður en það þýðir að styrkir eru veittir á grundvelli umsókna. Fjögur fagráð meta umsóknir, hvert á sínu fagsviði sem eru verkfræði, tæknivísindi og raunvísindi; náttúruvísindi og umhverfisvísindi; heilbrigðis- og lífvísindi og félagsvísindi og hugvísindi. Stjórn Rannsóknasjóðs tekur endanlegar ákvarðanir um styrki úr sjóðnum en þær eru einatt byggðar á mati fagráðanna.
Í nýrri ábendingu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnunin hafi gert forkönnun á starfsemi sjóðsins og telji ekki tilefni til þess að gerð verði stjórnsýsluúttekt á honum.
Fram kemur að á síðustu tveimur árum hafi RANNÍS lagt áherslu á að bæta verklag við meðferð umsókna til Rannsóknasjóðs og sé það nú mun faglegra og gegnsærra en áður. Engu að síður hafi verið bent á að vegna smæðar íslensks vísindasamfélags og tengsla milli vísindamanna sé erfitt að tryggja óhlutdrægni við úthlutun úr sjóðnum. Til að ráða bót á þessu leggur Ríkisendurskoðun til að fagráð sjóðsins verði að hluta skipuð erlendum sérfræðingum. Þá telur stofnunin að meta eigi hugsanlegan ávinning þess að stofna eitt fagráð fyrir allar fræðigreinar í stað þeirra fjögurra sem nú eru. Loks er lagt til að settar verði reglur um endurgreiðslu veittra styrkja séu skilyrði þeirra ekki uppfyllt.