Endurskoða þarf lagaumhverfi matvælaeftirlits

Ríkisendurskoðun hvetur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til að endurskoða lagaramma Matvælastofnunar og kanna hvort sameina eigi allt matvælaeftirlit á eina hendi.

Árið 2013 birti Ríkisendurskoðun úttekt á Matvælastofnun og beindi þar nokkrum ábendingum til Matvælastofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Matvælastofnun var hvött til að tryggja skýrt verklag og vandaða stjórnsýsluhætti og gæta meðalhófs við lagatúlkun og eftirlit. Ráðuneytið var á hinn bóginn hvatt til að styðja vel við starfsemi stofnunarinnar og beita sér fyrir því að hún gæti sinnt lögboðnum verkefnum. Eins var ráðuneytið hvatt til að endurskoða þau lög sem vörðuðu Matvælastofnun og setja rammalög um stofnunina sem kvæðu skýrt á um hlutverk hennar. Loks þyrfti ráðuneytið að meta hvort matvælaeftirlit á Íslandi yrði skilvirkara, hagkvæmara og árangursríkara ef það yrði sameinað á eina hendi.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar ítrekar stofnunin ábendingu sína til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sem snýr að endurskoðun lagaramma Matvælastofnunar og fyrirkomulagi matvælaeftirlits. Fram kemur að starfsumhverfi Matvælastofnunar hefur tekið umtalsverðum breytingum frá því að henni var fyrst komið á fót og henni falin ýmis ný verkefni. Er svo komið að 20 mismunandi lög og yfir 300 reglugerðir taka til starfsemi hennar. Að mati Ríkisendurskoðunar er aðkallandi að sett verði heildstæð löggjöf um hlutverk Matvælastofnunar enda sé skýr og gagnsæ löggjöf matvælaeftirlits til hagsbóta fyrir bæði almenning og eftirlitsskylda aðila. Þá hefur enn ekki verið kannað hvort ávinningur væri í því fólginn að fela sama aðila þau verkefni sem lúta að matvælaeftirliti og eru nú annars vegar á verksviði sveitarfélaganna og hins vegar á verksviði Matvælastofnunar.