Endurskoðun ríkisreiknings 2001

By 19.11.2002 2002 No Comments

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings árið 2001 kemur fram að bókhald og fjármál ríkisstofnana eru almennt í góðu lagi. Flestar stofnanir virtu fjárheimildir og í heild voru útgjöld nokkru lægri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum. Engu að síður fóru útgjöld á um fimmtungi fjárlagaliða fram úr þeim mörkum sem sett voru.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er m.a. fjallað um afkomu ríkissjóðs og fjárhagsstöðu á árinu 2001 og greint frá niðurstöðum endurskoðunar á efnahag og rekstri A-hluta ríkissjóðs. Þá er gerð grein fyrir endurskoðun stofnana og fyrirtækja utan A-hluta sem birtast í ríkisreikningi. Að lokum er fjallað um endurskoðun upplýsingakerfa og fjárheimilda. Nokkrir málaflokkar voru teknir til sérstakrar athugunar, þ.e. aðalskrifstofur ráðuneytanna, framhaldsskólar, embætti sýslumanna og þær stofnanir sem heyra undir skattkerfið. Þetta ár var jafnframt ákveðið að kanna sérstaklega hvort þessar stofnanir ríkisins stæðu eðlilega að samskiptum við birgja, fjárvörslu, virðisaukaskattskilum, ákvörðunum vegna launa yfirmanna og innra eftirliti með rekstri sínum.

Á síðari árum hefur Ríkisendurskoðun lagt á það ríka áherslu að stofnanir og fyrirtæki ríkisins efli innra eftirlit sitt. Þetta er í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið víða erlendis og miðar að því að reksturinn verði sem hagkvæmastur. Auk þess sem Ríkisendurskoðun hefur kannað innra eftirlit við reglubundna fjárhagsendurskoðun hafa verið gerðar sérstakar úttektir á nokkrum stofnunum. Í tengslum við þetta hafa verið settar fram margvíslegar tillögur til úrbóta. Þá hefur Ríkisendurskoðun sömuleiðis gefið út nokkur leiðbeiningarrit um innra eftirlit og einstaka þætti þess og hafa þau rit fengið jákvæða viðtöku.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að afkoma ríkissjóðs var betri árið 2001 en árið á undan og nam tekjuafgangur 8,6 ma. kr. á móti 4,3 ma. kr. tekjuhalla árið 2000. Þetta er þó lakari afkoma en ráðgert var í fjárlögum en þar var áætlað að tekjuafgangur yrði 33,9 ma. kr. Þessi mismunur stafar m.a. af því að tekjur af sölu eigna voru verulega minni en fjárlög gerðu ráð fyrir. Gjöld stóðu hins vegar nokkurn veginn í stað. Þá má nefna að staða eigin fjár ríkissjóðs versnaði um 26,7 ma. kr. á árinu 2001 og er það að mestu leyti vegna endurmatshækkana skulda umfram endurmatshækkun eigna. Tekjuafgangur frá rekstri bætti hins vegar heldur úr skák. Ef litið er til þróunar ríkisfjármála frá 1997 sést að tekju- og gjaldaliðir hafa hækkað nokkuð en þar sem sama máli gildir um eignir og skuldir hefur þetta ekki haft áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós að bókhald og fjármál stofnana ríkisins eru almennt séð í góðu lagi og þótti því ekki tilefni til verulegra athugasemda. Að þessu leyti hafa orðið talsverð umskipti til hins betra hjá mörgum stofnunum sem hafa fengið athugasemdir við fyrri endurskoðun og er ástandið t.d. orðið til fyrirmyndar hjá aðalskrifstofum ráðuneytanna. Sérstök endurskoðun þeirra fimm rekstrarþátta sem sérstaklega voru tilgreindir að framan leiddi einnig í ljós ýmsar breytingar til batnaðar. Nefna má að yfirleitt er stuðst við rammasamninga við innkaup, eignaskráning er almennt í góðu lagi og skil á virðisaukaskatti eru með viðeigandi hætti. Þá er ekki ástæða til að ætla annað en að launagreiðslur til yfirmanna séu í samræmi við þær lögmætu kjaraákvarðanir sem gilda fyrir þá. Að lokum má nefna að innra eftirlit reyndist ásættanlegt hjá meirihluta stofnana sem það var kannað hjá árið 2001. Sem vænta mátti reyndist það styrkast hjá stórum stofnunum, þ.e. þar sem unnt er að koma við ákveðinni verkaskiptingu mikilvægra starfa. Hjá minni stofnunum ræðst styrkleiki innra eftirlitsins fremur af verklagsreglum einstakra forstöðumanna.

Árið 2001 gaf fjármálaráðuneytið út reglugerð nr. 116/2001 um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta og kom hún í stað verklagsreglna sem gilt höfðu á árinu 2000. Markmið þessarar reglugerðar var að stuðla að skilvirkum rekstri ráðuneyta og stofnana og auka þar með festu og aga við framkvæmd fjárlaga. Ljóst er að flestar stofnanir virtu þær fjárheimildir sem þeim voru ætlaðar og höguðu rekstri sínum í samræmi við þær. Engu að síður liggur fyrir að um fimmtungur fjárlagaliða á árinu 2001 fóru fram úr þeim 4% mörkum sem reglugerðin mælir fyrir um og í sumum tilvikum var stofnað til útgjalda langt umfram þau mörk. Verður að telja að í þessu efni sé bæði við forstöðumenn viðkomandi stofnana að sakast sem og ráðuneytið sem þær heyra undir.

Á síðustu árum hefur færst mjög í vöxt að stofnanir í A-hluta ríkisreiknings gefi út endurskoðaða ársreikninga sína með skýringum og sundurliðunum. Þessu til staðfestingar má nefna að árið 1997 voru ársreikningar með áritun endurskoðanda alls 109 en árið 2001 voru þeir orðnir 408. Meginhluti þeirra eða 328 er með áritun Ríkisendurskoðunar. Í ár voru um 80% allra stofnana ríkisins teknar til endurskoðunar og er stefnt að því að allar stofnanir í A-hluta ríkisreiknings verði endurskoðaðar árlega frá og með næstu áramótum. Frá þeim tíma mun Ríkisendurskoðun einnig leggja aukna áherslu á að votta upplýsingar um umsvif og árangur sem stofnanir birta í ársskýrslum sínum auk fjárhagslegra upplýsinga.