Endurskoðun ríkisreiknings 2003

By 19.11.2004 2004 No Comments

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Endurskoðun ríkisreiknings 2003“ er gerð grein fyrir afkomu og fjárhagsstöðu ríkissjóðs á árinu 2003 og endurskoðun á efnahag ríkisins, ríkissjóðstekjum, ráðuneytum, stofnunum og öðrum fjárlagaliðum. Auk þess er fjallað um fjárheimildir ríkissjóðs og fjárhagsstöðu einstakra aðila gagnvart þeim í árslok 2003.
Það markmið Ríkisendurskoðunar hefur að mestu leyti tekist annað árið í röð að gefa út endurskoðaða ársreikninga fyrir allar stofnanir í A-hluta ríkisreiknings, auk stofnana og fyrirtækja í B-, C-, D- og E-hluta hans.

Fram kemur fram að á árinu 2003 var ríkissjóður rekinn með 6,1 ma.kr. halla miðað við 8,1 ma.kr. halla árið 2002. Aukinni fjárþörf var mætt með innkomnu fé frá sölu eigna og afborgunum veittra lána ríkisins umfram ný lán. Helstu breytingar á efnahagsreikningi ríkisreiknings voru þær að eignir minnkuðu um 18,4 ma.kr. og skuldir um 5,8 ma.kr. Eiginfjárstaða ríkissjóðs versnaði um 12,6 ma.kr. á árinu 2003 samanborið við 2,8 ma.kr. bata á árinu 2002.

Í skýrslunni ítrekar Ríkisendurskoðun fyrri álit sín að Alþingi samþykki breytingar á fjárheimildum aðila í A-hluta ríkisreiknings áður en þær koma til framkvæmda. Að mati Ríkisendurskoðunar veikir það framkvæmd fjárlaga þegar tilflutningur á fjárheimildum milli uppgjörstímabila er jafn mikill og raun ber vitni. Þetta mat stofnunarinnar á bæði við um þá aðila sem hafa eytt umfram gjaldaheimild og hina sem eiga ónotaða fjárheimild til margra ára. Brýnt er að Alþingi taki þetta mál til skoðunar.

Þá telur Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að endurskoða þann tekjugrunn sem birtist í ríkisreikningi. Ljóst er að áætlanir í virðisaukaskatti hefðu skekkt verulega tekjugrunninn ef ekki hefði verið gripið til þess að tekjufæra aðeins 5% þeirra. Áætlanir eru einnig umtalsverðar í opinberum gjöldum og tryggingagjaldi en þær hafa ekki verið leiðréttar með sama hætti og í virðisaukaskatti. Í þessu samhengi er afar mikilvægt að ríkið haldi áfram viðleitni sinni að afskrá fyrirtæki sem ekki eru lengur starfandi en fá engu að síður áætlanir vegna þess að ekki er skilað inn gögnum vegna þeirra.

Ríkisendurskoðun telur einnig mikilvægt að ríkissjóður taki betur mið af almennri reikningsskilareglu fyrirtækja um það hvernig bregðast skuli við áhrifum verðlags- og gengisbreytinga á peningalegar eignir og skuldir. Nú þegar íslensk fyrirtæki hafa afnumið svonefnd verðbólgureikningsskil telur Ríkisendurskoðun tímabært að beita þeim almennu reikningsskilareglum fyrirtækja sem þetta varðar í reikningsskilum ríkissjóðs og myndi afkoma hans á rekstrarreikningi þá líka sýna réttari mynd en nú er.

Ríkisendurskoðun hefur skynjað aukinn áhuga stjórnenda á að bæta innra eftirlit stofnana. Þetta hefur m.a. komið fram í tengslum við úttektir og annað eftirlit stofnunarinnar. Enn fremur verður sífellt algengara að bæði stjórnvöld og stjórnendur stofnana og ríkisfyrirtækja setji starfseminni ákveðin markmið og geri grein fyrir leiðum til að ná þeim. Í skýrslunni nefnir Ríkisendurskoðun helstu verkefni sín á þessu sviði á síðasta ári.

Við fjárhagsendurskoðun ársins 2003 gerði Ríkisendurskoðun könnun á allmörgum atriðum sem varða launamál stofnana, erlendan ferðakostnað, rafrænar greiðslur og ytri staðfestingar banka og viðskiptamanna á innistæðum og viðskiptakröfum stofnana. Í tengslum við þetta hvetur Ríkisendurskoðun stofnanir m.a. til að endurnýja ráðningarsamninga við starfsmenn sína í þeim tilvikum þegar slíkur samningur finnst ekki. Þá bendir Ríkisendurskoðun á nauðsyn þess að stofnanir geri ferðaáætlanir í upphafi árs og fylgi verklagsreglum fjármálaráðuneytisins við kaup á farseðlum Að lokum leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að stofnanir greini betur á milli starfa gjaldkera, bókara og kerfisstjóra og tryggi að þessir starfsmenn taki sér a.m.k. fjögurra vikna samfellt sumarfrí sem nái yfir mánaðamót. Sé slíkt ekki unnt vegna fámennis ættu stofnanirnar að notfæra sér greiðsluþjónustu fjársýslu ríkissjóðs.